Hagstofan hefur hlotið jafnlaunavottun samkvæmt staðlinum ÍST 85:2012. Vottunin staðfestir að starfsfólk sem vinnur sömu eða jafnverðmæt störf fær sömu laun og að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun.

Úttektaraðili var BSI á Íslandi og fór lokaúttekt á launakerfi Hagstofunnar fram 12. desember síðastliðinn. Formlegt skírteini um jafnlaunavottun var gefið út 16. janúar.

Á Hagstofunni starfa 113 manns, þar af 64 karlar og 49 konur og er 85% starfsfólks með háskólamenntun. Hagstofa Íslands er framsækin þekkingarstofnun sem vinnur að stöðugum umbótum til að veita aðgengilegar, áreiðanlegar og hlutlægar upplýsingar.