FRÉTT ÝMISLEGT 27. OKTÓBER 2022

Forsætisráðherra hefur skipað Hrafnhildi Arnkelsdóttur í embætti Hagstofustjóra frá og með 1. nóvember næstkomandi.

Hrafnhildur lauk Ph.Lic. gráðu í líftölfræði við Gautaborgarháskóla í Svíþjóð árið 1995 en áður hafði hún lokið grunnnámi í tölfræði og kerfisfræði við Lundarháskóla. Hún hefur enn fremur lokið stjórnunarnámi hjá IMG Deloitte og fjölda endurmenntunarnámskeiða auk þess sem hún hefur stundað nám í opinberri stjórnsýslu við Háskóla Íslands.

Hrafnhildur hefur sinnt störfum sviðsstjóra félagsmálasviðs Hagstofu Ísland frá árinu 2014. Áður var hún sviðsstjóri þjónustu- og þróunarsviðs og þar á undan deildarstjóri launa- og kjaramáladeildar. Hrafnhildur var forstöðumaður kjararannsóknarnefndar frá 1997 til 2005.

Fjórtán umsóknir bárust um embætti Hagstofustjóra en umsóknarfrestur rann út 1. september. Þrír drógu umsóknir sínar til baka. Þriggja manna hæfisnefnd mat hæfni umsækjenda og skilaði í kjölfarið greinargerð til forsætisráðherra.

Ólafur Hjálmarsson lét af embætti Hagstofustjóra í lok ágúst að eigin ósk eftir að hafa gegnt embættinu í 14 ár og tók við starfi skrifstofustjóra fjármálaráðs. Elsa Björk Knútsdóttir, sviðstjóri rekstrarsviðs Hagstofunnar, hefur verið settur Hagstofustjóri síðan Ólafur lét af störfum.

Hrafnhildur Arnkelsdóttir

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.