Lög og reglur
Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð í ríkjum Sameinuðu þjóðanna
Allsherjaþing Sameinuðu þjóðanna samþykkir eftirfarandi:
Forsendur
Hafa ber í huga að opinberar, tölfræðilegar upplýsingar eru nauðsynleg forsenda framfara á sviði efnahagsmála, mannfjöldamála, félagsmála og umhverfismála og gagnkvæmrar þekkingar og viðskipta milli ríkja og þjóða heims.
Hafa ber í huga að nauðsynlegt traust almennings á opinberum hagtölum byggist að miklu leyti á virðingu fyrir þeim grundvallargildum og meginreglum sem eru undirstaða allra þjóðfélaga sem leitast við að skilja sjálf sig og bera virðingu fyrir rétti þegnanna.
Hafa ber í huga að gæði opinberra hagskýrslna, og þar með áreiðanleiki þeirra upplýsinga sem stjórnvöld, efnahagslíf og almenningur eiga kost á, eru að miklu leyti komin undir samstarfi við einstaklinga, fyrirtæki og aðra um að láta í té viðeigandi og áreiðanleg gögn, sem nauðsynleg eru til tölfræðilegrar úrvinnslu, svo og undir samvinnu notenda og framleiðenda opinberra hagskýrslna um hvernig upplýsingaþörfum notenda skuli fullnægt.
Minnt skal á viðleitni alþjóðastofnana og alþjóðasamtaka, sem fást við hagskýrslugerð, til að koma á stöðlum og samræma hugtök til að auðvelda samanburð milli landa.
Ennfremur skal minnt á yfirlýsingu Alþjóðatölfræðistofnunarinnar um siðareglur í hagskýrslugerð.
Hagskýrslunefndin hefur áður lýst þeirri skoðun sinni að efni Ályktunar C (47), sem Efnahagsstofnun Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu samþykkti 15. apríl 1992, sé mikilvægt hvar sem er í heiminum.
Bent skal á að vinnuhópur sérfræðinga á vegum hagskýrslunefndar Efnahags- og félagsmálstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Asíu og Kyrrahafsríki komst að þeirri niðurstöðu á áttunda fundi sínum í Bangkok í nóvember 1993 að fallast bæri á Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð samkvæmt ályktun Efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu og að þær ættu erindi við allar þjóðir.
Ennfremur skal bent á að Samtök afrískra skipulagsfræðinga, tölfræðinga og mannfjöldafræðinga ályktuðu á áttunda fundi sínum í Addis Ababa í mars 1994 að Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð séu mikilvægar hvar sem er í heiminum.
Grundvallarreglur um opinbera hagskýrslugerð
- Opinberar hagskýrslur eru ómissandi þáttur í upplýsingakerfi lýðræðisþjóðfélags. Þær veita stjórnvöldum, efnahagslífi og almenningi upplýsingar um stöðu efnahagsmála, um mannfjöldann og stöðu félags- og umhverfismála. Til að þjóna þessum tilgangi skulu hagskýrslustofnanir hins opinbera taka saman opinberar hagskýrslur, sem standast kröfur um hagnýtt notagildi, gera þær aðgengilegar og setja fram á hlutlausan hátt til að tryggja rétt borgaranna til almennra upplýsinga.
- Til þess að varðveita traust til opinberra hagskýrslna er nauðsynlegt að opinberar hagskýrslustofnanir ákveði á grundvelli strangra faglegra sjónarmiða, þar á meðal um vísindaleg vinnubrögð og siðareglur, hvaða aðferðum og vinnureglum skuli beita við söfnun, úrvinnslu, geymslu og framsetningu á tölulegum upplýsingum.
- Til þess að auðveldar sé að túlka gögn rétt verða hagskýrslustofnanir að birta upplýsingar samkvæmt vísindalegum stöðlum um heimildir gagnanna og þær aðferðir og vinnubrögð sem beitt er við skýrslugerðina.
- Hagskýrslustofnanir eiga rétt á að gera athugasemdir við ranga túlkun og misnotkun hagtalna.
- Tölfræðileg gögn má sækja í margs konar heimildir, hvort heldur er kannanir eða opinberar skrár. Hagskýrslustofnanir verða að velja sér heimildir með hliðsjón af gæðum, tímasetningu, kostnaði og þeirri byrði sem lögð er á skýrslugjafa.
- Upplýsingar um einstaka aðila sem hagskýrslustofnun safnar til tölfræðilegrar úrvinnslu, hvort sem um er að ræða einstaklinga eða lögaðila, skulu vera algert trúnaðarmál og notaðar eingöngu til hagskýrslugerðar.
- Lög, reglugerðir og ákvarðanir, sem hagskýrslustofnunum er ætlað að starfa eftir, skulu gerð opinber.
- Nauðsynlegt er að samhæfa störf innlendra hagskýrslustofnana til þess að samræmi og skilvirkni náist í hagskýrslukerfi hins opinbera.
- Notkun hagskýrslustofnana í hverju landi á alþjóðlegum hugtökum, flokkunum og aðferðum stuðlar að samræmi og skilvirkni hagskýrslukerfa hins opinbera á öllum stjórnsýslustigum.
- Samstarf í hagskýrslugerð milli einstakra ríkja og á alþjóðavettvangi stuðlar að því að bæta hagskýrslukerfi í öllum ríkjum.
Grundvallarreglur þessar voru samþykktar á sérstökum fundi Hagskýrslunefndar Sameinuðu þjóðanna 11.- 15. apríl 1994 (reglurnar höfðu áður verið samþykktar á 47. fundi Efnahagsstofnunar Sameinuðu þjóðanna fyrir Evrópu í Genf 15. apríl 1992; Ísland átti aðild að þeirri samþykkt).
Allsherjaþing Sameinuðu þjóðanna samþykkti þessar grundvallarreglur 29. janúar 2014.
Grundvallarreglurnar og forsendur þeirra hafa verið þýddar á íslensku hjá Hagstofu Íslands eftir enska frumtextanum.