Samstarf við notendur
Hagstofa Íslands leggur mikið upp úr góðu samstarfi við notendur hagtalna. Samstarfið er annars vegar í formi ráðgjafarnefnda og hins vegar í formi notendafunda með helstu notendahópum. Samstarfið getur verið í formi reglubundinna eða tilfallandi samtala við sérfræðinga eða notendur og er það ýmist að frumkvæði Hagstofunnar eða notenda og fyrirkomulagið ýmist formlegt eða óformlegt. Samstarf við notendur eykur skilning á þörfum þeirra og veitir notendum upplýsingar um hagtölur og hagskýrslugerð.
Notendur geta sent ábendingar á netfangið notendur@hagstofa.is
Ráðgjafarnefndir
Ráðgjafanefndir geta starfað samkvæmt lögum, verið skipaðar af ráðherra eða starfað að ósk Hagstofunnar. Markmið þeirra er að skapa vettvang fyrir umræður um tölfræði og aðferðir sem tengist tilgreindum málaflokki. Ráðgjafanefndir Hagstofunnar funda reglulega og heyra undir hagstofustjóra.
Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs
Nefndin starfar samkvæmt lögum um vísitölu neysluverðs nr. 12/1995 og skal hún vera Hagstofunni til ráðgjafar um gerð vísitölunnar og fylgjast með reglubundnum útreikningi hennar. Nefndin er skipuð einum fulltrúa tilnefndum af Hæstarétti, einum tilnefndum af Alþýðusambandi Íslands og einum tilnefndum af Samtökum atvinnulífsins. Ráðgjafarnefnd um vísitölu neysluverðs heyrir undir hagstofustjóra.
Ráðgjafarnefnd um vinnumarkaðstölfræði
Nefndin var upphaflega stofnuð árið 2005 vegna samnings á milli Hagstofu Íslands og aðila vinnumarkaðarins. Frá árinu 2019 voru teknir upp ársfjórðungslegir fundir að frumkvæði Hagstofunnar með það að markmiði að bæta þjónustu og skapa vettvang fyrir umræður um tölfræði sem tengist vinnumarkaði. Nefndin er til ráðgjafar um gerð vinnumarkaðstölfræði og á fundum getur verið fjallað um óbirtar niðurstöður sem eru í vinnslu hjá Hagstofunni. Í nefndinni sitja fulltrúar frá Alþýðusambandi Íslands, BHM, BSRB, Kennarasambandi Íslands, Samtökum atvinnulífsins, Sambandi Íslenskra sveitarfélaga og fjármála- og efnahagsráðuneytinu auk fulltrúa opinberra spáaðila frá Seðlabankanum, Hagstofunni og Vinnumálastofnun. Ráðgjafanefnd þessi heyrir undir hagstofustjóra.
Ráðgjafarnefnd um aðferðafræði
Nefndin starfar að ósk Hagstofunnar. Hlutverk nefndarinnar er að hvetja til notkunar traustra aðferða í vinnu Hagstofunnar, í samræmi við 7. meginreglu evrópskrar hagskýrslugerðar. Í ráðgjafarnefndinni sitja fulltrúar frá Hagstofunni, raunvísindadeild Háskóla Íslands, Viðskiptadeild Háskólans í Reykjavík, Félagsvísindastofnun, Hagfræðideild Háskóla Íslands, Seðlabanka Íslands og Íslenskri Erfðagreiningu. Ráðgjafarnefndin heyrir undir Hagstofustjóra.
Fundargerðir ráðgjafarnefndar um aðferðafræði
Ráðgjafarnefnd um mannfjöldaspár
Nefndin starfar að ósk Hagstofu Íslands og er ætlað að veita ráðgjöf um forsendur og framsetningu framreikninga um mannfjöldann. Henni er auk þess ætlað að rýna í aðferðir og útreikninga við gerð mannfjöldaspáa.
Notendahópar
Notendahópar eru samtalsvettvangur Hagstofu Íslands og þeirra sem nota hagsskýrslur hennar hvað mest. Á fundum koma starfsmenn Hagstofu og notendur saman og fræðast um hagtölur og aðferðir við mælingar þeirra. Hagstofan leitar til notenda til að heyra þarfir og væntingar til þeirrar þjónustu sem stofnunin veitir og leitast þannig við að auka gæði starfseminnar, vera á tánum varðandi nýjar og breyttar þarfir og stuðla þannig að betur upplýstu samfélagi. Notendahópar hafa sumir reglubundna virkni, aðrir settir saman tímabundið en algengt er að fundað sé með helstu notendahópum árlega.
Dæmi um notendahópa:
Ferðaþjónusta
Í notendahópi ferðaþjónustunnar eru fyrirtæki í ferðaþjónustu og samtök sem þjónusta ferðaþjónustufyrirtæki. Leitast er við að fá einstaklinga á fundina sem nota hagtölur til að greina stöðu og þróun ferðaþjónustunnar á hverjum tíma.
Fjölmiðlar
Allir fjölmiðlar sem nota hagtölur í fréttir og fréttaskýringar eru velkomnir á notendafundi hópsins. Umræður í hópnum snúast um hvað Hagstofan getur gert til að koma betur til móts við þarfir og væntingar fjölmiðla.
Greiningaraðilar
Hópurinn fjallar um þarfir og væntingar þeirra notenda sem nota hagtölur til að greina efnahagsmál og framvindu hagkerfisins. Hann er skipaður fulltrúum frá:
- Ráðuneytum og opinberum stofnunum
- Seðlabanka Íslands
- Fyrirtækjum á fjármálamarkaði
- Sjálfstætt starfandi greiningarfyrirtækjum
- Samtökum á vinnumarkaði
Menning
Hópurinn fjallar um þarfir og væntingar helstu notenda hagtalna um menningu og miðlun. Hópurinn er skipaður fulltrúum frá ráðuneytum og opinberum stofnunum, kynningarmiðstöðvum skapandi greina, Bandalagi íslenskra listamanna, Samtökum iðnaðarins og háskólum.
Rannsóknarsamfélagið
Hópurinn fjallar um þarfir og væntingar þeirra notenda sem vegna vísindarannsókna fá aðgang að örgögnum hjá Hagstofunni og nota hagtölur til vísindalegra rannsókna. Hópurinn vinnur að bættri þjónustu fyrir örgagnanotendur og er ráðgefandi um mótun og framkvæmd stefnu Hagstofunnar í málefnum örgagna. Jafnframt er hópurinn ráðgefandi um hagnýtingu á gögnum, í umsjá stofnunarinnar, sem nýta má í vísindalegum tilgangi. Hann er skipaður fulltrúum frá bakhjörlum rannsakenda.
Stjórnsýsla
Í þessum notendahópi eru fulltrúar frá öllum ráðuneytum landsins. Hópurinn fjallar um þarfir og væntingar stjórnsýslunnar til öflunar og notkunar hagtalna.
Stjórnsýsla sveitarstjórnarstigs
Í þessum notendahópi eru aðilar frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga ásamt aðilum frá samtökum sveitarfélaga um land allt, Reykjavíkurborg og viðeigandi ráðuneytum. Hópurinn fjallar um þarfir og væntingar stjórnsýslu sveitarstjórnarstigs til öflunar og notkunar hagtalna.
Notendahópar heyra undir gæðastjóra.