Hagstofa Íslands tók til starfa árið 1914. Hagstofan er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðuneytið. Stofnunin er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forystu um framkvæmd hennar og samskipti við alþjóðastofnanir á þessu sviði. Hagstofustjóri er Hrafnhildur Arnkelsdóttir.

Hagstofan safnar tölulegum upplýsingum um íslenskt samfélag, vinnur úr þeim og miðlar til notenda. Miðlun hagtalna stuðlar að upplýstri þjóðfélagsumræðu og er grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana. Lögð er áhersla á góða þjónustu og fagmennsku þar sem áreiðanleiki og skilvirkni eru höfð að leiðarljósi. Starfsmenn Hagstofunnar vinna m.a. eftir  lögum um Hagstofu Íslands og  meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð og taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi.

Upplýsingar um starfsemi og rekstur Hagstofunnar eru birtar í  starfsáætlun  og ársskýrslu  stofnunarinnar.

Skipurit Hagstofu Íslands

Gögn

Sviðið ber ábyrgð á að hámarka gæði og hagnýtingu gagna með markvissri gagnasöfnun, kerfisbundinni vöktun og skilvirkari gagnastýringu. Með þessu er tryggt að gögn séu flokkuð, vistuð og unnin á samræmdan hátt, sem auðveldar frekari notkun þeirra. Á sviðinu eru tvær deildir; gagnaþjónusta og gagnastýring.

Gagnaþjónusta

Deildin annast samskipti við gagnaveitendur og þátttakendur í rannsóknum ásamt rekstri spyrlavers. Deildin sér um gagnasöfnun, vöktun gagnalinda og undirbúning gagna til frekari nýtingar.

Gagnastýring

Gagnastýring vinnur að því að hámarka virði og gæði gagna með sjálfvirkni og skilvirkni. Áhersla er lögð á nákvæmni og áreiðanleika í gagnaöflun og vinnslu. Deildin ber einnig ábyrgð á innleiðingu samræmdrar gagnahögunar í samstarfi við aðrar einingar til að tryggja markvissa og heildstæða gagnastýringu.


Greiningar

Á sviðinu fer fram úrvinnsla og greining gagna ásamt undirbúningi og frágangi efnis fyrir útgáfu í þremur deildum; félagsmál, efnahagsmál og spár.

Félagsmál

Deildin sér um útreikninga á vísitölum m.a. vísitölu neysluverðs, vísitölur launa, vísitölu byggingarkostnaðar, vísitölu framleiðsluverðs og skyldar verðvísitölur auk alþjóðlegs verðsamanburðar. Deildin ber einnig ábyrgð á hagtölum um vinnumarkað, lífskjör, mannfjölda, manntöl, félagsvísa, félagsvernd, heilbrigðismál, kosningar, fjölmiðlun og menningu auk hagtalna um laun, launakostnað, tekjur, skuldir, menntun og skólamál.

Efnahagsmál

Í deildinni er unnið með þjóðhagsreikninga, opinber fjármál, utanríkisverslun og fyrirtækjaskrá til hagskýrslugerðar. Einnig eru unnar hagskýrslur um umhverfismál, gistinætur og ferðaþjónustu, sjávarútveg og landbúnað auk tölfræði um útgjöld til rannsóknar- og þróunarstarfs og tölfræði um rekstur, afkomu, lýðfræði og nýjungavirkni fyrirtækja. Unnin er skammtímatölfræði um virðisaukaskattskylda veltu.

Spár

Deildin fylgist með afkomu þjóðarbúsins og vinnur greiningar á stöðu og horfum í hagkerfinu. Gerðar eru þjóðhagsspár og -áætlanir sem birtar eru í skýrsluformi. Samkvæmt lögum um opinber fjármál liggja spárnar til grundvallar fjárlagafrumvarpi og stefnumörkun í opinberum fjármálum. Deildin sinnir einnig öðrum rannsóknarverkefnum sem tengjast gerð þjóðhagsspár.

Rannsóknareiningin er sjálfstæð eining og aðskilin frá hagskýrslustarfseminni.


Samskipti

Sviðið sér um að gefa út og ritstýra efni Hagstofunnar á vef og samfélagsmiðlum. Sviðið ber einnig ábyrgð á vefhönnun, upplýsingaþjónustu, afgreiðslu og skiptiborð, umsýslu sérvinnslubeiðna, þjónustu við rannsóknarsamfélagið og umsóknum um aðgang að trúnaðargögnum. Auk þess heldur sviðið utan um þjónustu við viðskiptavini, notendasamstarf og samstarf við aðra framleiðendur hagtalna. Þá heyrir alþjóðlegt samstarf undir sviðið.


Fjármál

Fjármálasvið sér um fjármál, almennan rekstur, innkaup og bókhald. Enn fremur reikningshald er varðar útgáfu reikninga og innheimtu, launabókhald og fjárhagsáætlanir.


Upplýsingatækni

Rekstur og þjónusta tölvukerfa er í umsjá deildarinnar ásamt forritun og rekstri sérsniðinna hugbúnaðarlausna. Einnig er tæknileg ráðgjöf og stuðningur við deildir og svið Hagstofunnar meðal verkefna deildarinnar.


Þróun

Í deildinni er unnið að verkefnum sem beinast að umbótum og nýsköpun í hagskýrslugerð í samstarfi við aðrar deildir og svið Hagstofunnar. Þar má nefna þróun nýrra hagtalna, endurbætur á úrvinnslukerfum, uppsetning gagnalíkana, gagnahögun og umbætur á gagnainnviðum. Aðferðafræði, flokkunarkerfi og lýsigögn heyra einnig undir deildina auk öryggis- og gæðamála.