Hagstofan
Hagstofa Íslands tók til starfa árið 1914. Hagstofan er sjálfstæð stofnun sem heyrir undir forsætisráðuneytið. Stofnunin er miðstöð opinberrar hagskýrslugerðar í landinu og hefur forystu um framkvæmd hennar og samskipti við alþjóðastofnanir á þessu sviði. Hagstofustjóri er Hrafnhildur Arnkelsdóttir.
Hagstofan safnar tölulegum upplýsingum um íslenskt samfélag, vinnur úr þeim og miðlar til notenda. Miðlun hagtalna stuðlar að upplýstri þjóðfélagsumræðu og er grundvöllur lýðræðislegra ákvarðana. Lögð er áhersla á góða þjónustu og fagmennsku þar sem áreiðanleiki og skilvirkni eru höfð að leiðarljósi. Starfsmenn Hagstofunnar vinna m.a. eftir lögum um Hagstofu Íslands og meginreglum í evrópskri hagskýrslugerð og taka virkan þátt í alþjóðlegu samstarfi.
Upplýsingar um starfsemi og rekstur Hagstofunnar eru birtar í starfsáætlun og ársskýrslu stofnunarinnar.

Gögn og tækni
Á sviðinu fer fram rekstur og þróun gagna, gagnainnviða og upplýsingatækni auk gæða- og öryggismála. Innan sviðs eru þrjár einingar; gagnaþjónusta, upplýsingatækni og stafræn þróun og gæða- og öryggismál.
Gagnaþjónusta
Deildin ber ábyrgð á að hámarka gæði og hagnýtingu gagna með markvissri gagnaöflun, kerfisbundinni vöktun og skilvirkum gagnagæðamælingum. Með því er tryggt að gögn séu flokkuð, vistuð og unnin á samræmdan hátt, sem auðveldar nýtingu þeirra. Deildin annast jafnframt samskipti við gagnaveitendur og þátttakendur í rannsóknum ásamt rekstri spyrlavers.
Upplýsingatækni og stafræn þróun
Deildin ber ábyrgð á rekstri tölvukerfa, forritun og sérsniðnum hugbúnaðarlausnum. Auk þess veitir deildin tæknilega ráðgjöf og faglegan stuðning við aðrar einingar Hagstofu og hefur meginábyrgð á stafrænni þróun stofnunarinnar. Það felur meðal annars í sér þróun á samræmdum gagnainnviðum til að tryggja heildstæða og áreiðanlega gagnastýringu.
Gæða- og öryggismál
Einingin ber ábyrgð á rekstri og umsjón með stjórnkerfi upplýsingaöryggis og gæðakerfi Hagstofunnar.
Hagtölur
Á sviðinu fer fram úrvinnsla og greining gagna ásamt undirbúningi og frágangi efnis fyrir útgáfu. Innan sviðs eru þrjár einingar; félagsmál, efnahagsmál og spár.
Félagsmál
Deildin ber ábyrgð á útreikningum á vísitölum meðal annars vísitölu neysluverðs, vísitölum launa, vísitölu byggingarkostnaðar, vísitölu framleiðsluverðs og skyldum verðvísitölum auk alþjóðlegs verðsamanburðar. Deildin ber einnig ábyrgð á hagtölum um vinnumarkað, lífskjör, mannfjölda (þar með talið manntöl), félagsvernd, heilbrigðismál, kosningar, fjölmiðlun og menningu auk hagtalna um laun, launakostnað, tekjur, skuldir, menntun og skólamál. Að auki er unnið að þróun orkutölfræði innan félagsmáladeildar og gerð hagtalna um upplýsingatækninotkun heimila og einstaklinga.
Efnahagsmál
Deildin ber ábyrgð á gerð þjóðhagsreikninga og á tölfræði um fjármál hins opinbera, vöru- og þjónustuviðskipti við útlönd, rekstur, afkomu og lýðfræði fyrirtækja. Deildin sér einnig um tölfræði sem tengist sjávarútvegi, landbúnaði og ferðaþjónustu ásamt því að mæla útgjöld til rannsókna- og þróunarstarfs í hagkerfinu. Þá fellur gerð umhverfis-reikninga hagkerfisins, ferðaþjónustureikninga og hagreikninga landbúnaðarins jafnframt undir verksvið deildarinnar.
Spár
Deildin fylgist með afkomu þjóðarbúsins og vinnur greiningar á stöðu og horfum í hagkerfinu. Gerðar eru þjóðhagsspár og -áætlanir sem birtar eru í skýrsluformi. Samkvæmt lögum um opinber fjármál liggja spárnar til grundvallar fjárlagafrumvarpi og stefnumörkun í opinberum fjármálum. Deildin sinnir einnig öðrum rannsóknarverkefnum sem tengjast gerð þjóðhagsspár. Spádeildin er sjálfstæð eining sem er aðskilin frá hagstölugerðinni.
Rannsóknareiningin er sjálfstæð eining og aðskilin frá hagskýrslustarfseminni.
Samskipti og samstarf
Deildin ber ábyrgð á öllum útgáfum Hagstofunnar og ritstýrir efni Hagstofunnar á vef og samfélagsmiðlum auk þess að bera ábyrgð á ásýndarmálum og samhæfingu ytri samskipta Hagstofunnar. Deildin ber einnig ábyrgð á vefhönnun, upplýsingaþjónustu, afgreiðslu og skiptiborð, umsjón með sérsniðnum hagtölum, þjónustu og samstarf við rannsóknarsamfélagið og örgagnaþjónustu. Auk þess heldur deildin utan um þjónustu við viðskiptavini, notendasamstarf og samstarf við aðra framleiðendur hagtalna. Þá heyrir alþjóðlegt samstarf undir deildina.
Fjármál
Deildin ber ábyrgð á fjármálum, almennum rekstri, innkaupum og bókhaldi. Enn fremur ábyrgð á reikningshaldi er varðar útgáfu reikninga og innheimtu, launabókhald, fjárhagsáætlanir og ferðamál. Auk þess ber deildin ábyrgð á rekstri húsnæðis.
Mannauður
Mannauðsdeild ber ábyrgð á að styðja við starfsfólk og stjórnendur með því að sjá um ráðningar, starfsþróun, frammistöðumat og velferð starfsfólks. Hún tryggir að vinnulöggjöf sé virt, vinnuumhverfi sé öruggt og að stofnunin hafi hæft og ánægt starfsfólk til að ná markmiðum sínum.