Stefnur Hagstofu Íslands
Gervigreindarstefna
Hagstofa Íslands stefnir að því að nýta gervigreind (GG) til að hámarka skilvirkni, gæði og áreiðanleika í gagnasöfnun, vinnslu og miðlun hagtalna. Markmiðið með innleiðingu gervigreindar er aukin framleiðni og bætt þjónusta, bæði innan stofnunarinnar og til notenda opinberra hagtalna á Íslandi. Meðal annars mun gervigreind geta haft víðtæk áhrif á hagræðingu í vinnslu gagna, greiningu þeirra, miðlun hagtalna til notenda auk notendasamskipta. Stefnan byggir á gildandi lögum og reglum auk alþjóðlegra staðla um notkun gervigreindar og upplýsingatækni.
SkilgreiningHagstofa Íslands telur til gervigreindar þau reiknirit eða -forrit sem geta sjálf lært af nýjum gögnum og komist að eigin niðurstöðu. Þessi stefna nær því til sérhæfðari vélnáms reiknirita (e. machine learning) sem læra að vinna mjög afmörkuð verkefni með vönduðum hætti og verður hér eftir kölluð þröng gervigreind. Einnig nær stefnan til stærri og flóknari djúptauganeta og mállíkana sem geta leyst mörg flókin og mismunandi verkefni, hér eftir kölluð breið gervigreind. Nú þegar notar Hagstofan þrönga gervigreind í afmörkuðum verkefnum við vinnslu á hagtölum en breiða gervigreindin hefur hingað til einungis verið nýtt sem stuðningur við störf starfsfólks.
FramtíðarsýnHagstofa Íslands stefnir að því að gervigreind verði hluti af menningu stofnunarinnar og verði nýtt til að auka skilvirkni í framleiðsluferlum, framleiðni hjá starfsmönnum og hagkvæmni í ráðstöfun fjármuna. Notkun gervigreindar styður við stefnu og gildi Hagstofunnar um að upplýsa samfélagið um stöðu þess á hverjum tíma ásamt því að tryggja bætta þjónustu, auka framsækni í framleiðslu og notkun á tækni auk þess að bæta áreiðanleika gagna. Notendur munu eiga þess kost að nota sérhæfða þjónustu á vef Hagstofunnar þar sem gervigreind mun aðstoða við sérsniðna úrvinnslu gagna og svörun fyrirspurna.
Stefnuyfirlýsing
Notkun gervigreindar hjá Hagstofu Íslands skal vera gagnsæ og rekjanleg, taka mið af lögum og reglum og stuðla að markmiðum og tilgangi Hagstofunnar. Notkunin miðar að því að hámarka afköst og bæta þjónustu, hvort sem er við gagnavinnslu, greiningu eða miðlun. Gervigreind getur virkað eins og "aðstoðarmaður" innan teyma og á að auka gæði, skilvirkni og tímanleika úrvinnslu og útgáfu gagna. Endanlegar ákvarðanir liggja þó alltaf hjá mannauði stofnunarinnar.
LykilþættirTil að innleiða gervigreind á árangursríkan hátt eru þrír lykilþættir nauðsynlegir:
- Tækni- og gagnainnviðir Tækniinnviðir Hagstofunnar þurfa að styðja nægilega vel við notkun gervigreindar til að tryggja skilvirka vinnslu. Greina þarf fjárfestingarþörf og fjárfesta í viðeigandi vél- og hugbúnaði til notkunar við innleiðingu gervigreindar. Aðgengi að réttum gögnum, samræmd uppbygging gagnasafna og lýsigagna eru lykilatriði til að gervigreind geti unnið með gögn á árangursríkan hátt. Í þessu samhengi er innleiðing á gagnaflæðilíkani Hagstofunnar lykilþáttur.
- Starfsfólk Nægileg þekking og þjálfun starfsfólks í notkun gervigreindar er lykilforsenda fyrir árangursríkri innleiðingu. Nýjungum í tækni og þekkingu á gervigreind verður miðlað til starfsfólks á reglubundinn og skipulagðan hátt þannig að hæfni til að nýta gervigreind eflist stöðugt.
- Öryggi gagna og persónuvernd Gervigreind verður nýtt innan þeirra lagaramma sem gilda um verndun gagna og persónuvernd. Sérstaklega verður gætt að því að miðla ekki gögnum sem ekki eru ætluð til opinberrar birtingar og að notkun gervigreind verði skilyrt við örugg og vernduð tól.
Ávinningur af notkun gervigreindar
Helsti ávinningur af innleiðingu gervigreindar í starfsemi Hagstofunnar felst í aukinni skilvirkni í hagskýrslugerð, aukinni hæfni starfsfólks og bættri þjónustu út á við. Gervigreind verður nýtt til að bæta úrvinnslu gagna og tímanleika í útgáfu hagtalna auk þess sem hún mun styðja við nýsköpun í greiningu gagna. Hagstofa Íslands mun með þessu móti stuðla að framþróun á þjónustu og upplýsingagjöf til samfélagsins.
ÁhættuþættirNotkun gervigreindar hjá Hagstofu Íslands skal vera gagnsæ og rekjanleg, taka mið af lögum og reglum og stuðla að markmiðum og tilgangi Hagstofunnar. Notkunin miðar að því að hámarka afköst og bæta þjónustu, hvort sem er við gagnavinnslu, greiningu eða miðlun. Gervigreind getur virkað eins og "aðstoðarmaður" innan teyma og á að auka gæði, skilvirkni og tímanleika úrvinnslu og útgáfu gagna. Endanlegar ákvarðanir liggja þó alltaf hjá mannauði stofnunarinnar.
SamantektStefna Hagstofu Íslands um notkun gervigreindar leggur grunn að metnaðarfullri áætlun sem miðar að því að auka gæði og sjálfvirkni í verkferlum stofnunarinnar.
Með vel ígrunduðum aðferðum, öflugri þekkingu starfsfólks og öruggum gagnainnviðum mun Hagstofan nýta gervigreind til að efla skilvirkni, áreiðanleika og gæði hagtalna.
Næstu skrefÞegar stefnan hefur verið samþykkt er næsta skref að gera framkvæmdaáætlun þar sem gerð verður grein fyrir aðgerðum og tímasetningu þeirra, hindrunum sem kunna að standa í vegi aðgerða og hvernig tekist verði á við þær.