Stefnur Hagstofu Íslands
Umhverfis- og loftslagsstefna Hagstofu Íslands
Framtíðarsýn
Hagstofa Íslands ætlar að vera til fyrirmyndar í umhverfis- og loftlagsmálum og lágmarka neikvæð áhrif stofnunarinnar á umhverfið. Í því fellst að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda (GHL), draga úr myndun úrgangs og notkun orku.
Yfirmarkmið
Hagstofan stefnir á að draga úr losun GHL á stöðugildi um 50% fyrir árið 2030 miðað við árið 2019 og kolefnisjafna það sem eftir stendur.
Gildissvið og umfang
Stefnan nær til allra samgangna á vegum Hagstofunnar, þ.m.t. ferða erlendis og ferða starfsmanna til og frá vinnu. Stefnan nær einnig yfir alla orkunotkun og úrgangsmyndun í húsnæði stofnunarinnar og á viðburðum á vegum hennar.
Sérstaklega verður horft á mælanlega umhverfisþætti sem vega þungt í starfsemi Hagstofunnar:
- Losun GHL vegna millilandaflugs starfsmanna á vegum Hagstofunnar.
- Losun GHL vegna ferða starfsmanna á vegum Hagstofunnar innanlands.
- Losun GHL vegna ferða starfsmanna til og frá vinnu
- Fjöldi samgöngusamninga sem stofnunin gerir við starfsmenn.
- Rafmagnsnotkun stofnunarinnar.
- Heitavatnsnotkun stofnunarinnar.
- Magn og flokkun úrgangs sem fellur til á stofnuninni.
Kolefnisjöfnun
Mat á koltvísýringsfótspori stofnunarinnar, sem reiknað er í CO2 ígildum, er lagt til grundvallar aðgerðum og umfangi aðkeyptrar kolefnisjöfnunar. Hagstofan mun fyrst og fremst leggja áherslu á að draga úr losun í rekstri en einnig að kolefnisjafna alla eftirstandandi losun með kaupum á viðurkenndum kolefniseiningum.
Tenging við núverandi skuldbindingar
Stefna þessi tekur mið af skuldbindingum íslenskra stjórnvalda í umhverfis- og loftlagsmálum og verkefninu Græn skref í ríkisrekstri.
Eftirfylgni
Umhverfis- og loftlagsstefna Hagstofunnar er rýnd á hverju ári af stýrihóp umhverfismála. Hagstofan heldur grænt bókhald og eru niðurstöður þess notaðar til að meta árangur markmiða ár hvert. Markmið og stefna eru uppfærð með tilliti til þróunar á losun gróðurhúsalofttegunda á milli ára. Stefnan er samþykkt af framkvæmdastjórn og upplýsingum um árangur aðgerða er miðlað á heimasíðu Hagstofunnar.
Samþykkt af framkvæmdastjórn Hagstofunnar þann 13. desember 2021.