Stefnur Hagstofu Íslands
Vefstefna Hagstofu Íslands
Vefur Hagstofu Íslands er meginverkfæri stofnunarinnar þegar kemur að upplýsingamiðlun til notenda. Í gegnum vefinn eru veittar upplýsingar um þá tölfræði sem Hagstofan heldur utan um. Allt það efni sem birt er á vefnum er unnið í samræmi við meginreglur í evópskri hagskýrslugerð.
Meginhlutverk vefs Hagstofunnar er að veita notendum fyrsta flokks þjónustu sem auðveldar þeim að skilja það efni sem birt er á honum hvar og hvenær sem er. Áhersla er lögð á að bjóða upp á sjálfsafgreiðslu og rafræna þjónustu.
Notendur vefs Hagstofunnar eru fjölbreyttur hópur. Við skrif og framsetningu efnis er leitast við að taka tillit til ólíkra þarfa. Í flestum tilfellum er efni sett fram einkum með almenna notendur í huga. Lögð er áhersla á að framsetning efnis sé með eins einföldum og skýrum hætti og kostur er til þess að það nýtist sem flestum.
Fréttum og öðru áhugaverðu efni, sem birt er á vef Hagstofunnar og stofnunin vill vekja sérstaka athygli á, er jafnframt miðlað á samfélagsmiðlum.
Lögð er áhersla á að þróun í vefmálum Hagstofunnar taki mið af notendamiðaðri hönnun og evrópskum stöðlum um aðgengismál. Þarfir notenda eru ávallt settar í forgang og eru notendur hvattir til þess að koma á framfæri við stofnunina ábendingum um það sem þeir telja að betur megi fara.
Vefur Hagstofunnar er lifandi verkefni sem er í stöðugri þróun. Í því felst meðal annars að hlekkjum og efni sé viðhaldið og það uppfært í samræmi við nýjustu upplýsingar. Jafnframt skal vefurinn vera aðgengilegur í öllum helstu tækjum, þar á meðal í snjallsímum og spjaldtölvum.