Þátttaka í rannsóknum
Rannsóknir Hagstofunnar
Íslenska tímarannsóknin árið 2023
Hagstofa Íslands framkvæmir þessa dagana tímarannsókn í fyrsta sinn á Íslandi en tímanotkunarrannsóknir mæla hvernig fólk ver tíma sínum. Rannsóknin beinist að deginum öllum og er horft til þess hversu miklum tíma fólk ver í ólíkar athafnir en þátttakendur eru beðnir um skrá tímanotkun sína í tvo daga
Markmiðið með könnuninni er þannig að varpa ljósi á það með hvaða hætti fólk ver tíma sínum í samanburði við önnur Evrópuríki. Ekki síst með tilliti til hlutdeildar fólks í ólaunuðum heimilis- og umönnunarstörfum eftir kyni.
Á næstu dögum verður rannsóknin lögð fyrir þátttakendur sem svara spurningalista á netinu, en þeir hafa verið valdir með slembiúrtaki úr þjóðskrá.
Ef þú hefur spurningar um rannsóknina eða þátttöku þína í rannsókninni, getur þú sent tölvupóst á gagnasofnun@hagstofa.is eða hringt í síma 528-1000.
Vinnumarkaðsrannsókn
Hagstofa Íslands rannsakar reglulega vinnumarkaðinn til að fá áreiðanlegar upplýsingar um störf fólks, vinnutíma, atvinnuleit, menntun og fleira. Rannsóknin nær líka til þeirra sem eru í námi, heimavinnandi eða eru ekki í launuðum störfum. Rannsóknin hefur verið framkvæmd frá árinu 1991. Á árunum 1991 – 2002 voru tvær rannsóknir á ári, í maí og nóvember og svo samfelld allt árið frá og með árinu 2003.
Vinnumarkaðsrannsóknin er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hvern einstakling í úrtakinu 5 sinnum á 18 mánaða tímabili. Með því erum við að skoða breytingar á stöðu fólks á milli ólíkra tímabila. Um 4.000 manns eru valdir í úrtak á hverju ári úr Þjóðskrá. Viðtölin taka um það bil 5 mínútur og líða 3-6 mánuðir á milli þar til við höfum samband aftur.
Rannsókn á útgjöldum heimilanna
Rannsókn á útgjöldum heimilanna er framkvæmd allt árið um kring og eru árlega 1.222 heimili í úrtaki. Megintilgangur rannsóknarinnar er að afla gagna í grunn fyrir vísitölu neysluverðs sem er einn helsti mælikvarði á verðbólgu. Einnig er hún notuð til að reikna út kaupmátt, verðtryggðan sparnað og fjárskuldbindingar.
Rannsókn á útgjöldum heimilanna gefur mikilvægar upplýsingar um neysluvenjur heimila. Hún sýnir útgjöld allra heimilisgerða á landinu og er mjög mikilvæg heimild um breytingar á neyslumynstri yfir tíma. Viðtölin taka um 30 mínútur í síma og svo tekur við 2 vikna búreikningshald þar sem allir heimilismenn sem bera einhver útgjöld halda utan um dagleg útgjöld í búreikningshefti sem eru send á heimilið 1-2 vikum eftir viðtal.
Lífskjararannsókn
Árlega er framkvæmd rannsókn á lífskjörum fólks á Íslandi þar sem hátt í 5.000 manns eru valdir í úrtak úr Þjóðskrá. Hagstofa Íslands hefur rannsakað lífskjör hér á landi frá árinu 2004 og er rannsóknin hluti af samræmdri lífskjararannsókn Evrópusambandsins. Lífskjararannsóknin er langsniðsrannsókn þar sem haft er samband við hvern og einn 4 ár í röð. Með því er verið að skoða breytingar á lífskjörum á milli ára.
Lífskjararannsóknin er heimilisrannsókn sem gefur heildarmynd af dreifingu lífskjara eftir ólíkum hópum fólks á Íslandi. Flestar spurningar eru um húsnæði, efnahag, heilsufar og stöðu á vinnumarkaði en einnig eru nokkrar spurningar um stöðu annarra heimilismanna.
Ferðavenjurannsókn
Ferðavenjurannsókn Hagstofu Íslands hefst sumarið 2017. Að þessu sinni sér Gallup um að framkvæma rannsóknina fyrir hönd Hagstofunnar.
Niðurstöður rannsóknarinnar veita mikilvægar upplýsingar um ferðavenjur Íslendinga, bæði innanlands og utan, hvort sem um er að ræða viðskiptaferðir eða skemmtiferðir. Sambærilegar rannsóknir eru framkvæmdar í öðrum löndum Evrópu.
Þátttakendur eru 3.000 einstaklingar sem valdir eru af handahófi úr þjóðskrá. Flestar spurningar varða áfangastaði, gistingu, ferðamáta og ýmsan kostnað við ferðir bæði innan Íslands og utan.
Rannsóknin var síðast framkvæmd árið 2008.
Rannsókn á notkun á tæknibúnaði og neti
Rannsókn á notkun einstaklinga á tæknibúnaði og neti er framkvæmd reglulega á vormánuðum. Þær upplýsingar sem óskað er eftir eru tvíþættar, annars vegar er spurt um þann tæknibúnað sem til er á heimilinu og hins vegar um notkun á tölvum, interneti og netverslun.
Um 2.500 manns á aldrinum 15-74 eru valdir í úrtak með slembiaðferð úr þjóðskrá. Spurningarnar eru flestar um tækjaeign, tölvu- og netnotkun og verslun á netinu. Að auki er spurt um heimilisgerð, stöðu á vinnumarkaði og menntun. Niðurstöðurnar eru nýttar til að fá heildarmynd af tækjabúnaði heimila og netnotkun eftir ólíkum hópum fólks í samanburði við aðrar þjóðir í Evrópu.