Hefur Hagstofa Íslands óskað eftir þinni þátttöku í rannsókn? Ef þú hefur verið dreginn í úrtak færðu sent kynningarbréf þess efnis áður en við hringjum. Kynningarbréfin útskýra hvaða upplýsinga við erum að óska eftir og í hvaða tilgangi.

Yfirleitt þarf ekki að undirbúa sig sérstaklega fyrir þátttöku í rannsóknunum Hagstofunnar. Spurningarnar snúa oftast að daglegu lífi og er reynt eftir fremsta megni að hafa þær einfaldar svo að allir skilji þær.
Ekki er hægt að hringja í alla sem búa á Íslandi til að afla upplýsinga, það er bæði dýrt og tekur mjög langan tíma. Þess vegna er tekið handahófskennt úrtak, þar sem hver einstaklingur er fulltrúi hundruða samborgara sinna.

Hverjir eru valdir í úrtak

Einstaklingar sem eru 15 ára og eldri og búsettir á Íslandi geta verið valdir í úrtak í rannsóknum Hagstofu Íslands. Hver sem dreginn er í úrtak er mikilvægur hluti af heild og endurspeglar þá þjóðfélagshópa sem hann tilheyrir. Mikilvægt er að allir taki þátt svo að enginn þjóðfélagshópur standi útaf.

Hagstofa Íslands hefur ávallt samband við þátttakendur í rannsóknum áður en þær hefjast með því að senda kynningarbréf. Þar koma fram allar helstu upplýsingar um tilgang rannsóknarinnar, meðferð þeirra upplýsinga sem er aflað og hvernig þær eru nýttar.

Spyrill á vegum Hagstofunnar hefur samband símleiðis eftir að kynningarbréf hafa verið send út og óskar eftir þátttöku. Ef tíminn hentar ekki fyrir viðtal er hægt að bóka tíma síðar innan þess tímaramma sem rannsóknin er í gangi.

Trúnaður við þátttakendur

Allir sem valdir eru í úrtak hjá Hagstofu Íslands eru upplýstir um hvernig gögnin eru nýtt og hvar finna má helstu niðurstöður rannsókna sem eru framkvæmdar. Aðeins sérfræðingar sem vinna með gögn rannsókna hafa aðgang að upplýsingum úr þeim. Við lok úrvinnslu eru persónuauðkenni þátttakenda afmáð og gögnin varðveitt undir ópersónulegu rannsóknarnúmeri.
Hagstofan birtir aðeins heildarniðurstöður sem ekki er hægt að rekja til einstakra svarenda. Svör þátttakenda eru eingöngu nýtt til hagskýrslugerðar og eru undir engum kringumstæðum veittar öðrum stofnunum eða lögaðilum. Sjá nánari upplýsingar um verklagsreglur Hagstofu Íslands um meðferð trúnaðargagna

Er skylda að svara?

Þátttaka einstaklinga í rannsóknum Hagstofu Íslands er valfrjáls. Hins vegar er ekki hægt að safna áreiðanlegum gögnum án þátttöku þeirra sem lenda í úrtaki.

Hagstofa Íslands er óháð stofnun og safnar mikilvægum gögnum sem eru nýtt við rannsóknir, erlendan samanburð, stefnumótun og upplýsta umræðu. Með því að taka þátt stuðlar þú að ákvarðanatöku sem byggir á tölfræðilegum niðurstöðum. Stjórnvöld og aðrar stefnumótandi stofnanir nýta sér niðurstöður Hagstofunnar við ákvarðanatöku og forgangsröðun.

Niðurstöður

Niðurstöður rannsókna okkar eru birtar í útgáfum og á vef Hagstofunnar. Niðurstöðunum er ætlað að nýtast almenningi, fræðimönnum, námsmönnum, fyrirtækjum, stjórnvöldum og fleirum til upplýsinga um þjóðfélagið, til samanburðar við önnur þjóðfélög, til rannsókna og til grundvallar stefnumótun og ákvarðanatöku.