Teknar hafa verið saman tölur um fjölda mála hjá héraðsdómstólum á árinu 2007. Stærstu tveir málaflokkarnir eru almenn einkamál og opinber mál, en síðan koma gjaldþrotamál, skipti dánarbúa og ýmsir aðrir smærri málaflokkar. Meðfylgjandi talnaefni sýnir þróun í fjölda mála og afgreiðslu þeirra hjá héraðsdómstólum frá og með árinu 1993, sem var fyrsta heila árið sem héraðsdómstólar störfuðu.
Almenn einkamál
Almenn einkamál sem afgreidd voru frá héraðsdómstólum á árinu 2007 voru 13.839 talsins, þar af voru 1.162 munnlega flutt og 12.677 útivistarmál. Fjöldi munnlega fluttra mála hefur verið nokkuð stöðugur frá ári til árs, en töluverðar breytingar eru á fjölda útivistarmála og hefur fjöldi þeirra sveiflast frá því að vera 7.676 árið 1996 í 24.367 árið 2002. Mikill meirihluti þessara mála eru til komin vegna vanskila og sveiflast heildarfjöldi útivistarmála í samræmi við sveiflur á fjölda þeirra mála.
Opinber mál
Afgreidd opinber mál voru samtals 5.507 talsins árið 2007. Þau skiptast í mál frá ríkissaksóknara, sem voru 152 talsins og mál frá lögreglustjórum, sem voru 5.355 talsins. Þróun frá árinu 1993 er sú að frá og með árinu 1997 fækkaði málum frá ríkissaksóknara mjög mikið, jafnframt því sem málum frá lögreglustjórum fjölgaði. Þetta má rekja til laga nr. 84/1996, en með þeim lögum var lögreglustjórum veitt ákæruvald í fleiri brotaflokkum en áður. Afgreidd mál frá lögreglustjórum árið 2007 eru töluvert færri en þau hafa verið öll ár frá árinu 1998.
Gjaldþrotamál
Afgreidd gjaldþrotamál einstaklinga voru 347 talsins árið 2007 og þar af voru gjaldþrotaúrskurðir 152. Hvort tveggja er álíka og næstu tvö ár á undan, en töluvert færri mál en fyrri ár. Afgreidd gjaldþrotamál lögaðila voru 1.529 talsins árið 2007, þar af voru gjaldþrotaúrskurðir 657. Miðað við þróun frá árinu 1993 er þetta fjölgun og með hæstu tölum á tímabilinu.
Hér verður ekki fjallað um fjölda annarra smærri málaflokka, en vísað til talnaefnis sem fylgir hér með.
Talnaefni