Uppsafnaðar lífeyrisskuldbindingar almannatrygginga námu um 3.170 milljörðum króna í lok árs 2021 samkvæmt útreikningum Hagstofu Íslands eða sem samsvarar 97% af vergri landsframleiðslu ársins (VLF). Lífeyrisskuldbindingar lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði námu rúmlega 5.205 milljörðum króna og opinberra starfsmanna um 1.314 milljörðum króna. Samtals námu áætlaðar heildarlífeyrisskuldbindingar almannatrygginga, opinberra starfsmanna og lífeyrissjóða á almennum vinnumarkaði um 9.689 milljörðum króna í lok árs 2021.
Þetta er í þriðja sinn sem mat á uppsöfnuðum lífeyrisskuldbindingum er birt en fyrsta birtingin var árið 2015. Þessi tölfræði er hluti af ESA 2010, þjóðhagsreikningastaðli Evrópusambandsins.
Við útreikning á lífeyrisskuldbindingum almannatrygginga er stuðst við svokallaða „uppsöfnun-að-dagsetningu“-aðferð (e. accrued-to-date (ADL)) en inntak hennar eru uppsafnaðar skuldbindingar gagnvart þeim sem þegar hafa unnið sér inn réttindi í lok viðmiðunarársins. Þessi aðferð tekur því hvorki mið af mögulegum réttindum út starfsævi þeirra sem eru þegar í kerfinu né nýrra réttindahafa heldur einungis punktstöðu réttindauppsöfnunar við lok viðmiðunarársins.
Niðurstöðurnar gefa ekki mynd af sjálfbærni lífeyriskerfis almannatrygginga enda ekki um uppsöfnunarkerfi að ræða. Ellilífeyrir í almannatryggingum sem hér er skilgreindur nær til ellilífeyris og heimilisuppbótar ellilífeyrisþega sem greidd er af Tryggingastofnun ríkisins. Lífeyrir eftirlifenda ásamt örorku undir lífeyristökualdri er undanskilinn.
Virði lífeyrisskuldbindinga er mjög háð raunvöxtum og samkvæmt samræmdri aðferðafræði er raunvaxtarprósenta til núvirðingar lífeyrisskuldbindinga almannatrygginga 3%. Á árinu 2021 er mat á áætluðum lífeyrisskuldbindingum almannatrygginga miðað við 3% raunvexti um 3.170 milljarðar króna. Við 1% lækkun vaxtastigsins hækka áætlaðar lífeyrisskuldbindingar í 3.807 milljarða króna og við sams konar hækkun myndu lífeyrisskuldbindingar standa í 2.684 milljörðum króna.
Heildarlífeyrisskuldbindingar sem hlutfall af landsframleiðslu hér á landi námu um 264% á árinu 2021 og nema lífeyrisskuldbindingar almannatrygginga um 97% eins og áður segir. Alþjóðlegur samanburður á lífeyriskerfum ríkja er erfiður sökum þess hversu mismunandi kerfin eru og hvernig þau eru fjármögnuð. Á myndinni hér að neðan er einungis Holland með hærra hlutfall af fjármögnuðum lífeyrisskuldbindingum en Ísland.
Frétt Eurostat um lífeyrisskuldbingar í þjóðhagsreikningum.