Árið 2018 var meðalævilengd karla 81,0 ár og meðalævilengd kvenna 84,1 ár á Íslandi.

Meðalævilengd sýnir hve mörg ár einstaklingur á að meðaltali ólifuð við fæðingu, ef miðað er við aldursbundna dánartíðni mannfjöldans. Aldursbundin dánartíðni hefur lækkað á undanförnum áratugum og má því vænta þess að fólk lifi að jafnaði lengur en reiknuð meðalævilengd segir til um.

Frá árinu 1988 hafa karlar bætt við sig rúmlega sex árum og konur rúmlega fjórum í meðalævilengd (sjá mynd 1).

Mynd 1. Meðalævilengd, 1988-2018

Á 10 ára tímabili (2008–2017) var meðalævi karla lengst í Sviss 80,7 ár og skipuðu þeir fyrsta sætið í Evrópu. Fast á hæla þeirra komu karlar á Íslandi (80,6), Liechtenstein (80,3), Svíþjóð (80,0) og Ítalíu (80,0), síðan á Spáni og í Noregi (79,7). Styst var meðalævilengd evrópskra karla í Rússlandi (62,6), Moldavíu (65,9), Úkraínu (66,0).

Á sama tíma var meðalævi kvenna á Spáni 85,7 ár og í Frakklandi 85,5 ár og skipuðu þær fyrsta og annað sæti í Evrópu. Næst á eftir komu konur í Sviss (85,0), Ítalíu (84,9), Liechtenstein (84,4), Luxemborg (84,1) og á Íslandi (84,0). Meðalævilengd kvenna var styst í Moldavíu (74,0), Rússlandi (74,6) og Úkraínu (76,1).

Ævilengd háskólamenntaðra jókst meira en grunn- og framhaldskólamenntaðra milli 2011-2018
Árið 2018 var meðalævilengd 30 ára kvenna með grunnskólamenntun 52,6 ár á meðan þrítugir grunnskólamenntaðir karlar máttu búast við að lifa 48,8 ár til viðbótar. Konur með framhaldsskólamenntun máttu búast við að lifa rúmlega tveimur árum lengur en stallsystur þeirra með grunnskólamenntun eða í 54,9 ár frá 30 ára aldri. Munurinn var meiri meðal karla þar sem ævilengd 30 ára karla með framhaldsskólamenntun var að meðaltali 51,8 ár eða rúmlega þremur árum lengri en karla með grunnskólamenntun. Aftur á móti mega þrítugir háskólamenntaðir einstaklingar eiga von á því að lifa lengur en þeir sem minni menntun hafa. Þannig var ævilengd 30 ára kvenna með háskólamenntun 56,1 ár eða 3,5 árum meira en þrítugra kvenna með grunnskólamenntun árið 2018. Ævilengd 30 ára karla með háskólamenntun var 53,7 ár eða tæpum fimm árum lengri en þrítugra karla með grunnskólamenntun.

Mynd 2. Meðalævilengd 30 ára kvenna eftir menntunarstigi 2011-2018

Mynd 3. Meðalævilengd 30 ára karla eftir menntunarstigi 2011-2018

Milli áranna 2011 og 2018 jókst ævilengdin frá 30 ára aldri mest meðal háskólamenntaðra, eða um 1,4 ár. Ævilengd 30 ára jókst minna meðal framhaldsskólamenntaðra eða 0,9 ár en styttist um 0,1 ár hjá grunnskólamenntuðum.

Ungbarnadauði í Evrópu minnstur á Íslandi
Árið 2018 létust 2.254 einstaklingar sem búsettir voru á Íslandi, 1.139 karlar og 1.115 konur. Dánartíðni var 6,4 látnir á hverja 1.000 íbúa og ungbarnadauði 1,7 börn af hverjum 1.000 lifandi fæddum árið 2018.

Mynd 4. Ungbarnadauði á Íslandi, 1987-2018 Á 10 ára tímabili (2008–2017) var ungbarnadauði á Íslandi að meðaltali 1,8 af hverjum 1.000 lifandi fæddum. Hvergi í Evrópu var ungbarnadauði jafn fátíður og hér. Ungbarnadauði var að meðaltali 2,2 í Finnlandi og Slóveníu, 2,5 í Svíþjóð og Noregi og 2,7 í Tékklandi og Kýpur. Tíðastur var ungbarnadauði í Tyrklandi, 11,7 af hverjum 1.000 lifandi fæddum.

Inflúensu- og mislingafaraldrar frá 1843 til 1918
Sé dánartíðni skoðuð eftir aldri fyrir lengra tímabil sést glöggt hvernig dánartíðni hefur þróast hérlendis. Mynd 5 sýnir dánartíðni eftir aldri fyrir árin 1841 - 2017 en á því tímabili lækkaði dánartíðni barna mikið og ævilengd jókst almennt. Myndin sýnir röðun dánartíðni þannig að þeim mun dekkri sem reitir myndarinnar eru þeim mun hærri var dánartíðni á viðkomandi aldri á því ári sem um ræðir. Þannig sést lækkandi dánartíðni barna á tímabilinu greinilega með því að liturinn verður æ skærari eftir því sem nær dregur á tímabilinu. Þegar nær dregur í tíma sést á súlunum að dánartíðni er hlutfallslega mest hjá þeim sem eldri eru. Þegar lóðréttu súlurnar eru skoðaðar sjást einnig ýmsir faraldrar en þeir birtast sem dökkar súlur á myndinni. Til dæmis sjást greinilega inflúensufaraldrar áranna 1843, 1862, 1866 og 1894, mislingafaraldur sem lagðist greinilega þungt á yngri aldurshópanna árið 1882 og loks spænska veikin árið 1918.

Mynd 5. Dánartíðni eftir aldri 1841-2017. Dökkir reitir sýna háa dánartíðni og ljósir lága

Skýringar
Ungbarnadauði er stöðluð alþjóðleg vísitala sem sýnir dánartíðni barna á fyrsta aldursári. Hún er reiknuð með því að deila fjölda látinna á fyrsta aldursári með fjölda lifandi fæddra í árgangi og margfalda niðurstöðuna með 1.000. Um samanburð á tölum um ævilengd og ungbarnadauða í Evrópu er rétt að geta þess að tölurnar fyrir 2008–2017 byggjast á útreikningum Hagstofu Evrópusambandsins, Eurostat.

Menntun er flokkuð samkvæmt ISMENNT2011, íslensku menntunarflokkuninni. ISMENNT2011 er byggt á alþjóðlegu flokkunarkerfi menntunarstigs ISCED2011 (International Standard Classification of Education 2011). Skýringar má finna á ISMENNT2011.

Á mynd 5 yfir dánartíðni eftir aldri má sjá prósenturöð dánartíðni fyrir aldursflokka 1841 - 2017. Prósenturöð merkir að gildunum er raðað í stærðarröð og svo reiknað út hversu hátt hundraðshlutfall gildanna er lægra en hvert og eitt gildi gagnasafnsins. Þannig myndi gildið í fimmtugustu prósenturöð vera hærra en helmingur gildanna sem eru til staðar, í sjötugustu og fimmtu prósenturöð er gildið sem er hærra en þrír fjórðu hlutar gildanna og svo koll af kolli. Myndin er byggð á þessum kóða.

Talnaefni