Frá árinu 1987 hefur Hagstofa Íslands leitað upplýsinga árlega um félagslega heimaþjónustu og fjárhagsaðstoð sveitarfélaga. Árið 2009 nutu 8.060 heimili félagslegrar heimaþjónustu og hafði þeim fjölgað um 196 (2,5%) frá árinu á undan og um 434 (5,7%) frá árinu 2007. Rúmlega þrjú af hverjum fjórum þessara heimila voru heimili aldraðra eða 6.160 (76,4%). Á þessum heimilum aldraðra bjó 7.691 einstaklingur og jafngildir það 20,3% þeirra landsmanna sem eru 65 ára og eldri. Í Reykjavík naut tæplega fjórðungur (24,2%) 65 ára og eldri félagslegrar heimaþjónustu. Meðalfjöldi vinnustunda á heimili árið 2009 var 118 (tæplega 3 stundir á viku) og hafði meðalfjölda vinnustunda fækkað um 7 frá árinu á undan.
Árið 2009 fengu 5.994 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fjölgað um 965 (16,1%) frá árinu áður og um 1.714 (40%) frá 2007. Fjölmennasti hópurinn árið 2009 sem fékk fjárhagsaðstoð var sem fyrr einstæðir barnlausir karlar (42,2% heimila) og einstæðar konur með börn (29,3% heimila).
Á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2009 bjuggu 10.427 einstaklingar eða 3,3% þjóðarinnar, þar af voru 3.892 börn (17 ára og yngri) eða 4,8% barna á þeim aldri. Árið 2007 bjuggu 7.997 einstaklingar eða 2,6% þjóðarinnar á slíkum heimilum, þar af voru 3.284 börn eða 4,1% barna.
Félagsþjónusta sveitarfélaga 2007-2009 - Hagtíðindi
Talnaefni
Nánari upplýsingar
Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.isDeila
Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.