FRÉTT FÉLAGSMÁL 04. OKTÓBER 2012

Árið 2011 fengu 7.715 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem fengu slíkar greiðslur fjölgað um 805 (11,6%) frá árinu áður og um 1.721 (28,7%) frá 2009. Árið 2011 var tæplega helmingur (48,3%) viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulaus og af þeim tæplega tveir þriðju án bótaréttar, alls 2.228 einstaklingar. Fjölmennustu hóparnir árið 2011 sem fengu fjárhagsaðstoð voru sem fyrr einstæðir barnlausir karlar (43,2% heimila) og einstæðar konur með börn (26,8% heimila).

Á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2011 bjuggu 12.540 einstaklingar eða 3,9% þjóðarinnar, þar af voru 4.098 börn (17 ára og yngri) eða 5,1% barna á þeim aldri.  Árið 2010 bjuggu 11.493 einstaklingar eða 3,6% þjóðarinnar á slíkum heimilum, þar af voru 3.974 börn eða 5% barna.

Árið 2011 nutu 7.999 heimili félagslegrar heimaþjónustu.  Rúmlega fjögur af hverjum fimm þessara heimila voru heimili aldraðra eða 6.687 (83,6%) og hafði þeim fjölgað um 194 (3,0%) frá árinu 2010.  Á þessum heimilum aldraðra bjuggu 8.386 einstaklingar og jafngildir það 20,9% þeirra landsmanna sem eru 65 ára og eldri. Í Reykjavík naut fjórðungur (24,8%) 65 ára og eldri félagslegrar heimaþjónustu. Meðalfjöldi vinnustunda við heimaþjónustu á heimili árið 2011 voru 115  (2,5 stundir á viku) og hafði þeim fjölgað um eina frá árinu á undan. Tæp 43% vinnustunda voru eingöngu við þrif, en í öðrum tilvikum var einnig um persónulega þjónustu að ræða.

Árið 2011 nutu 2.057 börn dagvistar á einkaheimilum og hafði þeim fjölgað um 286 (16,1%) frá árinu á undan. Alls voru rúm 7% barna 0 til 5 ára í slíkri dagvistun árið 2011.  Tæp 7% allra barna á fyrsta ári voru í dagvistun á einkaheimili og tæp 36% eins árs barna, en það eru börn sem ekki hafa náð leikskólaaldri.

Félagsþjónusta sveitarfélaga 2011 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.