Heimilum sem fá greidda fjárhagsaðstoð fækkar í fyrsta skipti frá árinu 2007
Árið 2014 fengu 7.749 heimili fjárhagsaðstoð sveitarfélaga og hafði heimilum sem þáðu slíkar greiðslur fækkað um 293 (3,6%) frá árinu áður. Árið 2013 fjölgaði heimilum hins vegar um 306 (4,0%) milli ára og árið 2012 um 21 (0,3%), en hafði fjölgað að jafnaði um 860 árin á undan frá árinu 2007. Breyting í fjölda fjárhagsaðstoðarþega hefur haldist í hendur við þróun atvinnuleysis eins og kemur fram í myndinni, sem sýnir fjölda viðtakenda fjárhagsaðstoðar og árlegt hlutfall atvinnuleysis árin 2003 til 2014.
Frá árinu 2013 til 2014 jukust útgjöld sveitarfélaganna vegna fjárhagsaðstoðar um 203 milljónir eða 4,5%, en á föstu verðlagi jukust þau um rúmlega 2%. Meðalmánaðargreiðslur fjárhagsaðstoðar hækkuðu á sama tíma um 3 þúsund kr. eða 4,5%, en á föstu verðlagi hækkuðu þær um rúm 2%. Mánaðarfjöldi sem fjárhagsaðstoð var greidd var 4,8 mánuðir að meðaltali 2014, en 4,7 mánuðir 2013.
Af þeim heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2014 voru einstæðir barnlausir karlar (44,8% heimila) og einstæðar konur með börn (24,9% heimila) fjölmennustu hóparnir. Árið 2014 voru tæplega 44% viðtakenda fjárhagsaðstoðar atvinnulausir og af þeim þrír fjórðu án bótaréttar, alls 2.508 einstaklingar.
Á heimilum sem fengu fjárhagsaðstoð árið 2014 bjuggu 12.625 einstaklingar eða 3,8% þjóðarinnar, þar af voru 4.203 börn (17 ára og yngra) eða 5,3% barna á þeim aldri. Árið 2013 bjuggu 13.130 einstaklingar eða 4,0% þjóðarinnar á slíkum heimilum, þar af voru 4.421 barn eða 5,5% barna.
Fimmti hver 65 ára og eldri nýtur félagslegrar heimþjónustu
Árið 2014 nutu 8.617 heimili félagslegrar heimaþjónustu. Fjögur af hverjum fimm þessara heimila voru heimili aldraðra eða 6.943 (80,6%) og hafði þeim fjölgað um 50 (0,7%) frá árinu 2013. Á þessum heimilum aldraðra bjuggu 8.721 einstaklingur og jafngildir það 19,7% landsmanna 65 ára og eldri. Í Reykjavík naut tæplega fjórðungur (22,6%) 65 ára og eldri félagslegrar heimaþjónustu.
Börnum í dagvist á einkaheimilum fækkar
Árið 2014 nutu 1.699 börn dagvistar á einkaheimilum og hafði þeim fækkað um 243 (12,5%) frá árinu á undan. Alls voru rúm 6,2% barna 0 til 5 ára í slíkri dagvistun árið 2014. Rúm 6% allra barna á fyrsta ári voru í dagvistun á einkaheimili og rúm 30% eins árs barna, en það eru börn sem ekki hafa náð leikskólaaldri.