FRÉTT FÉLAGSMÁL 03. OKTÓBER 2008

Heildarútgjöld til félagsverndar jukust um 25,7 milljarða króna eða úr 222,3 milljörðum árið 2005 í 248,0 árið 2006. Með félagsvernd er átt við öll afskipti opinberra aðila og einkaaðila sem miða að því að létta byrðum af heimilum og einstaklingum vegna tiltekinnar áhættu eða þarfar. Þó eru þeir fyrirvarar að jafnframt komi ekki samhliða til endurgjalds eða um sé að ræða einstaklingsbundið fyrirkomulag.

Útgjöld til félagsverndar (án stjórnunarkostnaðar) jukust í krónum talið um 11,7% frá árinu 2005 til 2006, en á föstu verðlagi ársins 2006 var vöxtur þessara útgjalda 4,6% og þegar tekið er tillit til mannfjöldabreytinga auk verðlagsbreytinga og útgjöld reiknuð í kr. á íbúa jukust raunútgjöld um 1,7%.  Útgjöld til félagsverndar sem hlutfall af vergri landsframleiðslu árið 2006 voru 20,9%, en árið 2005 voru þau 21,3%. 

 

Umfangsmesti málaflokkur félagsverndar hérlendis er heilbrigðismál. Til heilbrigðismála var varið tæpum 35% heildarútgjaldanna en málefni aldraðra voru í öðru sæti með tæp 29%. Í þriðja og fjórða sæti voru útgjöld vegna örorku tæp 16% og til fjölskyldna og barna tæp 15%. Til allra annarra verksviða var varið alls rúmlega 6% útgjaldanna.

Útgjöld á hverju verkefnasviði skiptast í greiðslur og niðurgreidda þjónustu.  Greiðslur eru beinar greiðslur í formi lífeyris eða bóta.  Hlutfall þessara greiðslna af útgjöldum til félagsverndar var rúm 47% árið 2006 en rúm 48% árið 2005.  Hlutfall niðurgreiddrar þjónustu var rúmlega 79% af útgjöldum á sviði heilbrigðismála árið 2006.  Vegna umfangs heilbrigðisþjónustunnar í útgjöldum til félagsverndar er hin niðurgreidda þjónusta á því verkefnasviði snar þáttur í velferðarþjónustunni á Íslandi.

Útgjöld til félagsverndar eru flokkuð á grundvelli ESSPROS (The European System of integrated Social Protection Statistics) flokkunarkerfis Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Nánari upplýsingar um aðferðafræði og skilgreiningar er að finna í lýsigögnum á vef Hagstofunnar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.