Ellilífeyrisþegar voru 45.435 í desember árið 2017. Þar af 21.311 karlar og 24.124 konur. Árið 2017 var 2.901 ellilífeyrisþegi yngri en 67 ára eða 6,4% en árið 2007 var sama hlutfall 3,5%. Árið 2017 voru 1.347 eða 3% ellilífeyrisþega búsettir erlendis.

Hagstofa Íslands birtir nú upplýsingar um fjölda lífeyrisþega í landinu í desember mánuði ár hvert frá árinu 2007 til 2017. Upplýsingarnar taka til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris auk örorkustyrks. Fram kemur skipting eftir greiðendum, þ.e. almannatryggingum og samtryggingardeildum lífeyrissjóða, án tvítalningar.

Greiðendur ellilífeyris karla 2007-2017

Greiðendur ellilífeyris kvenna 2007-2017

Ellilífeyrisþegum sem fá greiðslur frá lífeyrissjóðum fjölgar árið 2017 rétt eins og árin á undan. Í desember 2017 fengu tæp 98% karla en rúm 96% kvenna greiddan ellilífeyri eingöngu frá lífeyrissjóðum eða bæði frá Tryggingarstofnun og lífeyrissjóðum. Hliðstæðar tölur árið 2007 voru tæp 95% hjá körlum en tæp 92% hjá konum.

Örorkulífeyrisþegar voru 18.770 í desember árið 2017 og hafði fjölgað um 355 (1,9%) frá desember 2016. Árið 2017 voru örorkulífeyrisþegar 7,9% íbúa á aldrinum 18 til 66 ára, 6,1% karla á þeim aldri og 9,8% kvenna.

Karlar viðtakendur örorkulífeyris 2007 til 2017

Konur viðtakendur örorkulífeyris 2007 til 2017

Karlar voru rúm 40% örokulífeyrisþega árið 2017 en konur tæp 60%. Flestir örorkulífeyrisþega voru á aldrinum 50 til 67 ára árið 2017 eða rúm 56%. Tæp 34% voru 30 til 49 ára og 10% 18 til 29 ára.

Talnaefni