FRÉTT FÉLAGSMÁL 08. NÓVEMBER 2021

Ellilífeyrisþegar voru rúmlega 51 þúsund í desember árið 2020 sem er fjölgun um 3,9% frá fyrra ári. Þar af voru rúmlega 24 þúsund karlar og tæplega 27 þúsund konur. Um fjórðungur ellilífeyrisþega er yngri en 70 ára og tæplega helmingur er 75 ára eða eldri. Tæplega tvö þúsund ellilífeyrisþegar bjuggu erlendis eða tæplega 4% af heild, en þeim hefur fjölgað síðustu ár. Frá árinu 2017 hefur ellilífeyrisþegum búsettum erlendis fjölgað um 45%.

Flestir lífeyrisþegar fá greiðslur bæði frá Tryggingastofnun og lífeyrissjóðum, og sýnir mynd hvernig greiðslur skiptast eftir kyni og greiðendum lífeyrisgreiðslna árin 2011 til 2020.

Örorkulífeyrisþegar voru tæplega 20 þúsund í desember árið 2020 og fjölgaði um 0,3% milli ára, sem er lægri hlutfallsleg fjölgun en árin á undan. Endurhæfingalífeyrisþegar voru rúmlega þrjú þúsund í desember árið 2020 sem er aukning um 25% milli ára. Helsti munur á örorkulífeyri og endurhæfingalífeyri, er að endurhæfingarlífeyrir er tímabundin ráðstöfun.

Hagstofa Íslands birtir upplýsingar um fjölda lífeyrisþega í desember ár hvert 2007 til 2020. Upplýsingarnar taka til elli-, örorku- og endurhæfingarlífeyris auk örorkustyrks. Fram kemur skipting eftir greiðendum, þ.e. almannatryggingum og samtryggingardeildum lífeyrissjóða, án tvítalningar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1250 , netfang laun@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.