Atvinnuþátttaka kvenna var tæp 80% árið 2016 og hefur aldrei verið hærri, þátttaka karla var rúm 87%. Óleiðréttur launamunur kynjanna hjá fullvinnandi launþegum var rúm 14% árið 2015. Tæplega helmingur  kvenna 25-64 ára var með háskólamenntun árið 2016 samanborið við þriðjung karla á sama aldri.  Þá voru 45% karla og 30% kvenna með starfs- og framhaldsmenntun.  Konur eru nú 48% alþingismanna og 44% kjörinna sveitarstjórnarmanna en í mörgum öðrum áhrifastöðum er hlutur kvenna lægri. Hlutfall kvenna í stöðu framkvæmdastjóra fer eftir stærð fyrirtækis, til dæmis var það 22%  hjá fyrirtækjum með 1-49 starfsmenn en 9% í fyrirtækjum með 250 starfsmenn eða fleiri árið 2015

Hagstofa Íslands gefur út bæklinginn Konur og karlar á Íslandi 2017 í samstarfi við Jafnréttisstofu og velferðarráðuneytið. Í honum eru samanteknar upplýsingar sem gefa vísbendingar um stöðu kvenna og karla í samfélaginu. Þar eru tölur og myndrit um mannfjölda, fjölmiðla, menntun, vinnumarkað, laun og áhrifastöður. Bæklingurinn er gefinn út á hverju ári bæði á íslensku og ensku.

Einnig hafa Lykiltölur um konur og karla verið uppfærðar. Þar er þó aðeins stiklað á stóru úr víðtækum kyngreindum gögnum Hagstofunnar, sem nálgast má á vef stofnunarinnar.

Konur og karlar á Íslandi 2017 - bæklingur

Talnaefni