Hlutfall einstaklinga sem bjó við skort á efnislegum gæðum árið 2023 var 3,7%. Hlutfallið hækkaði úr 1,8% frá árinu á undan en þá mældist skortur á efnislegum gæðum minni en önnur ár sem mælingarnar ná yfir á tímabilinu 2008-2023. Á tímabilinu hefur skortur á efnislegum gæðum oftar mælst algengari á meðal kvenna en karla. Munurinn á hlutfalli kvenna og karla hefur þó verið óverulegur á árunum 2021-2023 en á síðasta ári bjuggu 3,8% kvenna við skort á efnislegum gæðum samanborið við 3,5% karla.
Einstaklingar með grunnmenntun eru líklegri til að búa við skort á efnislegum gæðum en þeir sem hafa lokið framhalds-, starfs- eða háskólamenntun. Árið 2023 bjuggu 5,3% þeirra sem höfðu lokið grunnmenntun við skort á efnislegum gæðum samanborið við 2,4% þeirra sem höfðu lokið framhalds- eða starfsmenntun og 2,2% þeirra sem höfðu lokið háskólamenntun.
Staða á húsnæðismarkaði hefur mikil áhrif
Öll þau ár sem mælingar Hagstofu ná til hefur skortur á efnislegum gæðum verið töluvert algengari á heimilum í leiguhúsnæði en heimilum í eigin húsnæði. Árið 2023 var hlutfall heimila í leiguhúsnæði þar sem fólk bjó við skort á efnislegum gæðum 12,2% samanborið við 2,1% heimila í eigin húsnæði.
Árið 2023 var skortur á efnislegum gæðum algengari á meðal heimila á höfuðborgarsvæðinu en heimila utan þess eða 4,5% samanborið við 2,9%.
Um gögnin
Skortur á efnislegum gæðum er mæling á bágum lífskjörum þróuð af Eurostat, hagstofu Evrópusambandsins. Þeir sem teljast búa við skort á efnislegum gæðum búa á heimili þar sem að minnsta kosti þrennt af eftirfarandi á við:
- Hafa lent í vanskilum húsnæðislána eða annarra lána vegna fjárskorts á síðastliðnum tólf mánuðum.
- Hafa ekki efni á að fara árlega í vikulangt frí með fjölskyldunni.
- Hafa ekki efni á kjöti, fiski eða sambærilegri grænmetismáltíð að minnsta kosti annan hvern dag.
- Geta ekki mætt óvæntum útgjöldum.
- Hafa hvorki efni á heimasíma né farsíma.
- Hafa ekki efni á sjónvarpstæki.
- Hafa ekki efni á þvottavél.
- Hafa ekki efni á bíl.
- Hafa ekki efni á að halda húsnæði nægjanlega heitu.
Niðurstöðurnar byggja á lífskjararannsókn Hagstofunnar (EU-SILC). Úrtak rannsóknarinnar er fengið á þann hátt að einstaklingar eru valdir með slembni úr þjóðskrá og þar með heimilið sem þeir tilheyra. Einstaklingur sem lendir í úrtakinu veitir upplýsingar um aðstæður heimilis, sínar eigin og annars heimilisfólks.
Við túlkun á niðurstöðum ber að hafa í huga að um úrtaksrannsókn er að ræða og því er gert ráð fyrir óvissu. Með því að hafa öryggisbil til hliðsjónar er hægt að leggja mat á hversu nákvæmlega úrtaksgildið segir til um hið raunverulega gildi í þýðinu. Öryggisbilin má finna í samsvarandi töflum á vef Hagstofunnar.
Gildin fyrir árin 2021-2023 eru bráðabirgðatölur.