FRÉTT FÉLAGSMÁL 15. JANÚAR 2007

Árið 2004 var rúmlega 207 milljörðum króna varið til félagsverndar á Íslandi. Útgjöldin það ár námu 22,6% af vergri landsframleiðslu en árið 1994 var þetta hlutfall 18,0%. Veigamesti málaflokkur félagsverndar hérlendis er heilbrigðismál og skapar það talsverða sérstöðu fyrir Ísland í evrópskum samanburði. Til heilbrigðismála var varið um 34% heildarútgjaldanna en málefni aldraðra voru í öðru sæti með 27% útgjalda sem runnu til félagsverndar. Í þriðja og fjórða sæti voru útgjöld vegna örorku og fjölskyldna og barna, um 14% til hvors málaflokks. Vegna þess hve ástandið á vinnumarkaði hérlendis einkenndist af almennri eftirspurn eftir vinnuafli árin 2001–2004 héldust útgjöld vegna atvinnuleysismála í lágmarki í alþjóðlegum samanburði.

Fjármögnun útgjalda til félagsverndar einkenndist af mikilli sjóðssöfnun lífeyrissjóða árin 2003 og 2004. Auk framlags ríkis, sveitarfélaga, atvinnurekenda og hinna tryggðu hefur hlutur fjármagnstekna verið veigamikill en sveiflukenndur þáttur í fjármögnun félagsverndar á Íslandi hin síðari ár.

Útgjöld til félagsverndar á Íslandi eru rétt undir meðaltali EES landanna árið 2003. Á Íslandi skiptast þau jafnt milli greiðslna (lífeyrir, bætur o.s.frv.) og niðurgreiddrar þjónustu, en í flestum öðrum löndum eru greiðslur mun stærri hluti útgjalda. Ef litið er til Norðurlanda árið 2004 eru útgjöld til niðurgreiddrar þjónustu á Íslandi álíka og í hinum löndunum en útgjöld til greiðslna töluvert lægri.

Útgjöld til félagsverndar 2001-2004 - Hagtíðindi

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.