FRÉTT FÉLAGSMÁL 14. JANÚAR 2011

Útgjöld til félagsverndar námu rúmum 380 milljörðum króna á árinu 2009 eða 25,3% af landsframleiðslu og hækkuðu verulega frá árinu 2008 er þau námu 22% af landsframleiðslu. Munar þar mestu um mikla aukningu á útgjöldum vegna atvinnuleysis sem hækkuðu úr 5,4 milljörðum króna árið 2008 í 25,7 milljarða króna árið 2009. Þessi útgjöld voru 1,7% af landsframleiðslu ársins en til samanburðar námu útgjöld vegna atvinnuleysis 0,4% af landsframleiðslu árið 2008 og 0,2% árið 2007. Hluti útgjalda vegna atvinnuleysis var um 6,8% af útgjöldum til félagsverndar árið 2009 samanborið við  1,7% árið 2008.

 

Um 36% útgjalda til félagsverndar á árinu 2009 voru vegna slysa og veikinda (heilbrigðismála), eða um 9% af landsframleiðslu. Til verkefna vegna öldrunar runnu rúmlega 21% útgjaldanna eða 5,3% af landsframleiðslu. Útgjöld vegna örorku, fötlunar vógu þungt en um 14% útgjalda til félagverndar runnu til þess málaflokks og tæplega 13% til fjölskyldna og barna og er hlutur hvors málaflokks um 3% af landsframleiðslu. Til fyrrgreindra fimm málaflokka félagsverndar runnu um 90% heildar útgjaldanna.
 
Árið 2009 var heildarfjármögnun félagsverndar 432 milljarðar króna, en þar af runnu 380 milljarðar króna til fjármögnunar á félagsvernd ársins og afgangurinn rúmir 52 milljarðar til sjóðsmyndunar. Sjóðsöfnun lífeyrissjóða á árinu 2009 minnkaði samanborið við fyrri ár vegna aukins atvinnuleysis en fjöldi lífeyrisþega var óbreyttur.

Fjármögnun hins opinbera á félagsvernd var 232 milljarðar króna eða 54% af heildarfjármögnun ársins 2009. Hlutur ríkissjóðs var 44% eða 189.5 milljarðar króna og hlutur sveitarfélaga 10% eða 43,3 milljarðar króna. Hlutur atvinnurekenda í fjármögnuninni var 148,5 milljarðar króna 2009 eða 34,4% og framlag hinna tryggðu 6,9% eða 29,8 milljarðar króna. Önnur fjármögnun var 20,8 milljarðar króna eða 5% af heildarfjármögnun félagsverndar.


ESSPROS flokkunin nær yfir þau útgjöld til félagsverndar hjá  opinberum aðilum og einkaaðilum sem létta byrðum af heimilum og einstaklingum vegna fjárhagslegrar íþyngingar eða tekjumissis. Eigin útgjöld heimila og einstaklinga til félagsverndar, til dæmis valfrjálsar tryggingar, teljast ekki með útgjöldum til félagsverndar samkvæmt ESSPROS flokkunarkerfinu. Útgjöld einkaaðila sem teljast félagsvernd eru til dæmis greiðslur úr lífeyrissjóðum og greiðslur vinnuveitenda vegna réttinda sem bundin eru í kjarasamningum.  

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.