FRÉTT FÉLAGSMÁL 09. DESEMBER 2010

Ritið Social tryghed i de nordiske lande 2008/09, sem gefið er út af Norrænu hagskýrslunefndinni á sviði félags- og tryggingarmála (Nordisk Socialstatistik Komité (NOSOSKO)) er komið út. Eins og síðustu tvö ár kemur ritið eingöngu út í rafrænni útgáfu.

Í ritinu er að finna samanburð á velferðarþjónustu/félagsvernd milli Norðurlandanna. Fjallað er um aðgerðir opinberra aðila og einkaaðila sem miða að lífskjarajöfnun og að því að létta byrðum af heimilum og einstaklingum vegna fjárhagslegrar íþyngingar eða tekjumissis. Samanburður er gerður eftir verkefnasviðum sem skiptast í greiðslur (bætur, lífeyri o.s.frv.) og niðurgreidda þjónustu. Í ritinu eru borin saman útgjöld til þjónustu, fjöldatölur um móttakendur og fyrirkomulag.

Útgjöld til félagsverndar lægst á Íslandi árið 2008
Útgjöld til félagsverndar á Íslandi árið 2008 námu 325,6 milljörðum króna eða 21,8% af landsframleiðslu samanborið við 28,9% í Danmörku, 28,8% í Svíþjóð, 24% í Noregi og 25,6% í Færeyjum og Finnlandi. Um 40% útgjaldanna á Íslandi árið 2008 voru vegna heilbrigðismála, en það samsvarar 8,8% af landsframleiðslu.

Útgjöld til félagsverndar á Norðurlöndum 2008, % af VLF
    Danmörk Færeyjar Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
Félagsvernd alls 28,9 25,6 25,6 21,8 24,0 28,8
Greiðslur 16,7 10,4 15,6 10,8 12,5 15,7
Niðurgreidd þjónusta 12,2 15,2 10,1 11,0 11,6 13,1
Fjölskyldur og börn 3,8 5,0 2,9 2,9 2,7 3,0
Atvinnuleysi 1,4 0,4 1,8 0,4 0,4 0,9
Heilbrigðismál 6,8 7,3 6,9 8,8 9,5 7,5
Aldraðir 11,1 8,4 8,9 4,9 6,7 11,5
Öryrkjar 4,4 4,1 3,3 3,1 3,8 4,3
Eftirlifendur 0,0 0,0 0,9 0,5 0,3 0,6
Húsnæðisaðstoð 0,7 0,0 0,4 0,7 0,1 0,5
Önnur félagshjálp 0,7 0,4 0,6 0,6 0,6 0,6

Atvinnuleysi mest á Íslandi og í Svíþjóð árið 2009
Dæmi um fjöldatölur í ritinu eru upplýsingar um atvinnuþátttöku, atvinnuleysi og fjölda starfandi árið 2009 í löndunum öllum. Það ár var atvinnuleysi mest á Íslandi og í Svíþjóð eða 7%, en vinnuaflið (starfandi og atvinnulausir) sem hlutfall af íbúum 16 til 64 ára var hæst á Íslandi eða 85%.

Atvinnuþátttaka, atvinnuleysi og starfandi 16-64 ára á Norðurlöndum 2009
  Danmörk Færeyjar Finnland Ísland Noregur Svíþjóð
Karlar og konur 16-64 ára (1.000) 3.535 35 3.547 204 3.198 5.962
Þar af í %:
Atvinnuþátttaka 81 80 74 85 79 80
Starfandi 76 76 68 78 76 73
  - í fullu starfi 58 49 59 60 56 54
  - í hluta starfi 18 27 9 18 20 19
Atvinnuleysi 5 4 6 7 3 7
Utan vinnumarkaðar 19 20 26 15 21 20
Alls 100 100 100 100 100 100

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.