Hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu nam 6,7% árið 2015. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 5,6% árið 2014 og 4,9% árið 2013. Vaxtarhraði ferðaþjónustunnar, mældur sem aukning í hlutdeild landsframleiðslu milli ára, hefur aldrei mælst meiri en árið 2015. Sé horft aftur til ársins 2011 hefur vöxturinn verið örari með hverju árinu.
Bráðabirgðatölur um áætlaða hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu ársins 2016 verða birtar 4. október næstkomandi.
Hlutur ferðaþjónustu samanborið við aðra atvinnugreinaflokka árið 2015
Þegar hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu er borin saman við aðrar atvinnugreinar þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er ekki til sem sérstök atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkun, heldur er hún samsett grein þar sem lagt er saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.
Neysla ferðamanna nam tæplega 400 milljörðum króna árið 2015
Neysla í ferðaþjónustu á Íslandi nam hátt í 400 milljörðum árið 2015. Borið saman á verðlagi hvors árs var neyslan 22% meiri en hún var árið 2014. Aukningin var mest í neyslu erlendra ferðamanna eða 33% frá árinu áður. Neysla innlendra ferðamanna jókst minna eða um 5,3%. Árið 2016 var neysla erlendra ferðamanna hérlendis 360 milljarðar króna og jókst um 36,7% frá fyrra ári borið saman á verðlagi hvors árs.
Tafla 1. Neysla í ferðaþjónustu á Íslandi 2009–2016 á verðlagi hvers árs | ||||||||
Ma.kr. | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 |
Neysla í ferðaþjónustu, alls | 168,1 | 173,2 | 205,2 | 245,5 | 279,8 | 324,4 | 396,9 | … |
Neysla erlendra ferðamanna | 92,8 | 90,5 | 112,8 | 137,5 | 165,9 | 197,3 | 263,2 | 359,8 |
Neysla innlendra ferðamanna | 60,9 | 67,0 | 74,4 | 88,1 | 92,4 | 105,6 | 111,1 | … |
Önnur neysla í ferðaþjónustu¹ | 14,4 | 15,7 | 17,9 | 20,0 | 21,6 | 21,6 | 22,5 | … |
¹ Tilreiknuð leiga á sumarhúsum og kostnaður atvinnurekenda vegna viðskiptaferða starfsfólks. |
Árið 2016 fjölgaði erlendum ferðamönnum um 36% samanborið við árið áður en til samanburðar fjölgaði þeim um 27% árið 2015. Árið 2016 var áætlaður heildarfjöldi ferðamanna 2.159.390. Þar af er áætlað að 367.459 daggestir hafi komið með skemmtiferðaskipum sem er fjölgun um 23% frá árinu 2015. Fjöldi næturgesta var 1.791.931 og voru þeir 39% fleiri en árið áður.
Þetta er meðal þess sem fram kemur í ferðaþjónustureikningum sem nú eru birtir í heild sinni fyrir árin 2009 til 2015 og að hluta fyrir árið 2016. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.