Bráðabirgðaniðurstöður ferðaþjónustureikninga gefa til kynna að hlutur ferðaþjónustu í landsframleiðslu hafi numið 8,6% árið 2017. Til samanburðar nam hlutur ferðaþjónustunnar 8,1% árið 2016 og 6,2% árið 2015. Aukning í hlutdeild af landsframleiðslu var nokkuð minni árið 2017 en árin 2015 og 2016 en aftur á móti sambærileg því sem hún var árin 2012 til 2014. Ferðaþjónustureikningar eru hliðarreikningar þjóðhagsreikninga og er ætlað að leggja mat á hlut ferðaþjónustunnar í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar.
Alls voru komur erlendra ferðamanna hingað til lands 2.690.465 árið 2017 sem var 25,4% aukning frá fyrra ári. Flestir ferðamenn eru gistifarþegar sem koma til landsins með millilandaflugi. Gistifarþegum fjölgaði um 24,1% sem er mun meiri aukning en í fjölda gistinátta sem fjölgaði um 7,3%.
Heildarútgjöld erlendra ferðamanna voru 376,6 milljarðar króna árið 2017
Heildarútgjöld erlendra ferðamanna hér á landi námu 376,6 milljörðum króna árið 2017 samanborið við 346 milljarða króna árið 2016. Tæpur fjórðungur útgjaldanna var vegna kaupa á gistiþjónustu eða 85,6 milljarðar króna. Þá greiddu erlendir ferðamenn 71,4 milljarða til ferðaskrifstofa og ferðaskipuleggjenda og 65 milljarða til innlendra flugfélaga vegna fargjalda hingað til lands og innanlands.
Útgjöld erlendra ferðamanna vega hlutfallslega mest í þjónustugreinum sem beint tengjast ferðamönnum. Hér má nefna ferðaskrifstofur, hótel og gistiheimili, bílaleigur og farþegaflutninga. Útgjöld erlendra ferðamanna í starfsemi sem fyrst og fremst snýr að heimamarkaði hefur þó farið vaxandi. Árið 2017 stóðu erlendir ferðamenn undir 46% af starfsemi veitingaþjónustu hérlendis, 29% af afþreyingar- og tómstundastarfsemi, 13,6% af menningarstarfsemi og 4,5% af verslun.
Tafla 1. Neysla í ferðaþjónustu á Íslandi 2009–2017 á verðlagi hvers árs | |||||||||
Milljarðar króna | 2009 | 2010 | 2011 | 2012 | 2013 | 2014 | 2015 | 2016 | 2017 2 |
Neysla í ferðaþjónustu, alls | 167,9 | 173,8 | 204,5 | 245,0 | 278,6 | 319,3 | 388,7 | 491,4 | 534,0 |
Neysla erlendra ferðamanna | 92,8 | 90,6 | 112,7 | 137,7 | 166,2 | 198,0 | 260,0 | 346,0 | 376,6 |
Neysla innlendra ferðamanna | 60,6 | 67,4 | 73,8 | 87,2 | 90,7 | 99,5 | 105,4 | 119,2 | 130,6 |
Önnur neysla í ferðaþjónustu¹ | 14,5 | 15,8 | 18,0 | 20,1 | 21,7 | 21,8 | 23,3 | 26,2 | 26,9 |
¹ Tilreiknuð leiga á sumarhúsum og kostnaður atvinnurekenda vegna viðskiptaferða starfsfólks. | |||||||||
2 Bráðabirgðatölur |
Hlutur ferðaþjónustu samanborið við aðra atvinnugreinaflokka árið 2017
Þegar hlutdeild ferðaþjónustu í landsframleiðslu er borin saman við aðrar atvinnugreinar þarf að hafa í huga að ferðaþjónusta er ekki til sem sérstök atvinnugrein í hefðbundinni atvinnugreinaflokkun, heldur er hún samsett grein þar sem lagt er saman tiltekið hlutfall af starfsemi annarra atvinnugreina.
Talnaefni