FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 26. JÚNÍ 2015

Mikill vöxtur hefur verið í þjónustu við erlenda ferðamenn á Íslandi á síðustu árum. Þannig hefur neysla erlendra ferðamanna aukist úr rúmlega 92 milljörðum króna árið 2009 í rúmlega 165 milljarða árið 2013, eða um 79% á nafnvirði.

Neysla íslenskra ferðamanna innanlands hefur einnig aukist, en þó minna en þeirra erlendu. Þannig hefur neysla innlendra ferðamanna á sama tímabili aukist úr tæplega 60 milljörðum í tæplega 88 milljarða, eða um rúmlega 47% á nafnvirði.

Neysla í ferðaþjónustu á Íslandi 2009-2013 á verðlagi hvers árs (milljarðar króna)
  2009 2010 2011 2012 2013
Neysla í ferðaþjónustu, alls 167,7 174,0 208,4 245,0 275,9
Neysla erlendra ferðamanna 92,3 90,1 115,1 136,8 165,1
Neysla innlendra ferðamanna 59,6 66,7 73,6 86,5 87,8
Önnur neysla í ferðaþjónustu* 15,8 17,2 19,7 21,7 23,0
*) Tilreiknuð leiga á sumarhúsum og kostnaður atvinnurekenda vegna viðskiptaferða starfsfólks.

Þótt hlutur erlendra ferðamanna hafi vaxið (úr 52% árið 2010 í 60% 2013), þá skipta innlendir ferðamenn íslenska ferðaþjónustu miklu máli. Neysla innlendra ferðamanna nær yfir neyslu Íslendinga innanlands, jafnt í ferðum þeirra innanlands sem og hluta af utanlandsferðum þeirra (s.s. flugmiða sem keyptir eru af íslenskum flugfélögum).

Ný útgáfa ferðaþjónustureikninga (e. Tourism Satellite Accounts, TSA) er nú birt fyrir árin 2009-2013. Þessi tölfræði leggur mat á hlut ferðaþjónustu í hagkerfinu og þróun hennar sem atvinnugreinar. Ferðaþjónustureikningar voru unnir í samstarfi við Rannsóknarmiðstöð ferðamála við Háskóla Íslands með fjármögnun frá Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneyti. Hér eru fyrstu niðurstöður birtar, en fleiri töflur fyrir árin 2009-2013 verða birtar á haustmánuðum 2015.

Rétt er að benda á að vegna breyttrar aðferðafræði eru þessar tölur ekki samanburðarhæfar við þær sem Hagstofa Íslands birti fram til ársins 2011.

Samhliða birtingu á ferðaþjónustureikningum birtir Hagstofa Íslands nýjar skammtímatölur yfir fjölda starfsmanna og veltu í nokkrum einkennandi atvinnugreinum í ferðaþjónustu. Tölur um fjölda starfsmanna verða uppfærðar mánaðarlega og veltutölur á tveggja mánaða fresti.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.