FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 13. DESEMBER 2023

Ferðum landsmanna fjölgaði um 25% á milli áranna 2021 og 2022 eða úr um 2.207.000 ferðum í um 2.762.000. Um er að ræða bæði vinnuferðir og ferðir í einkaerindum, jafnt innan lands sem utan, þar sem gist var yfir að minnsta kosti eina nótt.

Talsverðar breytingar urðu á ferðamynstri landsmanna á þessu tímabili sem má eflaust að stórum hluta rekja til efnahagslegra eftirkasta kórónuveirufaraldursins sem hafði enn allnokkur áhrif árið 2021.

Sem dæmi um það má nefna að fjöldi vinnuferða nærri tvöfaldaðist á milli áranna 2021 og 2022, úr 165.000 í 317.000, auk þess sem utanlandsferðum í einkaerindum fjölgaði úr 323.000 í 792.000 eða um 144%. Á sama tíma fækkaði ferðum innanlands í einkaerindum um 3,8% eða úr 1.719.000 í 1.653.000.

Greinileg árstíðasveifla er á ferðamynstri landsmanna. Ferðir eru þannig fæstar á fyrsta ársfjórðungi (janúar-mars) en flestar á þriðja ársfjórðungi (júlí-september). Á þriðja ársfjórðungi 2021 fóru landsmenn í um 847.000 ferðir en yfir eina milljón ferða árið 2022 og fjölgaði ferðum á þriðja ársfjórðungi á milli ára um 25%. Meðalfjöldi ferða á einstakling var 7,7 árið 2021 og 9,4 árið 2022.

Yfir helmingur hélt sig heima á fyrsta ársfjórðungi 2021
Hlutfall þeirra sem ferðuðust ekki á hverjum ársfjórðungi var hæst í upphafi 2021 og fóru 52% íbúa ekki í neina ferð þar sem gist var yfir nótt á fyrsta ársfjórðungi 2021. Það er eina tilvikið á tímabilinu þar sem yfir helmingur landsmanna hélt sig heima í heilan ársfjórðung. Á fyrsta ársfjórðungi 2022 var sama hlutfall 46%.

Bæði árin var hlutfall þeirra sem sögðust hafa farið að minnsta kosti í eina ferð hæst á þriðja ársfjórðungi eða 76% árið 2021 og 80% árið 2022. Heilt yfir hækkaði hlutfall ferðamanna (þ.e. þeirra sem fóru í að minnsta kosti eina ferð á viðkomandi ársfjórðungi) á milli ára. Hlutfall ferðamanna var þó tiltölulega óbreytt á milli ára á fjórða ársfjórðungi eða tæp 60%. Greinileg árstíðasveifla er í hlutfalli ferðamanna, það er lægst á fyrsta ársfjórðungi en hæst á þriðja ársfjórðungi.

Hlutfall utanlandsferða í einkaerindum fór jafnt og þétt hækkandi allt frá upphafi 2021 og fram á annan ársfjórðung 2022, eða úr 6,5% í 33%. Utanlandsferðum fjölgaði enn á þriðja ársfjórðungi 2022, en vegna mikils fjölda ferða innanlands voru þær þó ekki nema 27% af heildarfjölda ferða í einkaerindum þann ársfjórðunginn. Svipaðan feril má sjá milli ára í hlutfalli vinnuferða af heildarfjölda ferða, en hlutfall þeirra af heildarfjölda ferða nærri tvöfaldaðist á tímabilinu, eða úr 7,2% í upphafi árs 2021 í 13,5% í lok árs 2022. Ekki var spurt um niðurbrot vinnuferða í ferðir innanlands annars vegar og utan landsteina hins vegar.

Fleiri ferðalög karla en kvenna
Nánast allt tímabilið sem um ræðir ferðuðust karlar oftar en konur. Eina undantekningin á þessu var fjórði ársfjórðungur 2022. Þegar utanlandsferðir erlendis í einkaerindum eru skoðaðar sést að heildarfjöldi ferða er meiri hjá konum fyrir bæði árin.

Hagstofa Íslands birtir einnig fjölda ferða eftir aldri brotið niður á tíu ára aldursbil. Ferðum íbúa á Íslandi fjölgaði á milli ára fyrir alla aldurshópa og var aukningin mest hjá fólki á aldrinum 35-54 ára (36%) en minnst hjá elstu og yngstu aldurshópunum. Aukningin nam 16% fyrir 65-79 ára og 14% fyrir 16-24 ára. Vinnuferðum fjölgaði á milli ára hjá öllum aldurshópum, nema hjá elsta aldurshópnum (65-79 ára) þar sem vinnuferðum fækkaði um 37%.

Um gögnin
Hagstofa Íslands hóf árið 2021 rannsókn á ferðavenjum Íslendinga. Gögnum er bæði safnað á vef og með úthringingum og er markmiðið að afla upplýsinga um ferðalög landsmanna, bæði vinnuferðir og ferðir í einkaerindum, svo framarlega að gist sé að minnsta kosti eina nótt fjarri heimili sínu.

Rannsóknin fer þannig fram að á hverjum ársfjórðungi er haft samband við 1.550 einstaklinga á aldrinum 16-79 ára sem búsettir eru á Íslandi samkvæmt þjóðskrá og þeir spurðir um ferðir sínar í næsta ársfjórðungi á undan. Fyrir endanlegt úrtak voru þeir einstaklingar frátaldir sem reyndust látnir, ekki búsettir á Íslandi eða ekki taldir sem partur af þýði af öðrum ástæðum. Endanlegt svarhlutfall var mismunandi á milli ársfjórðunga en sveiflaðist á bilinu 51%-60%.

Við gerð ferðavenjurannsóknar er stuðst við aðferðafræði sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins um ferðamálatölfræði með það fyrir augum að niðurstöðurnar sé hægt að bera saman við niðurstöður sambærilegra kannana í öðrum aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Þetta eru fyrstu niðurstöður og vonast er til að fleiri breytur bætist við síðari birtingar svo sem ástæður þess að ekki var ferðast á síðasta ársfjórðungi, helstu áfangastaðir innanlands og utan og eyðsla á ferðalögum. Gert er ráð fyrir að birta tölur fyrir fyrri hluta árs 2023 í mars 2024.

Um úrtaksrannsókn er að ræða og þarf að hafa það í huga við túlkun á niðurstöðum. Allar tölur eru bráðabirgðatölur sem geta tekið breytingum yfir tíma í ljósi frekari yfirferðar.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.