Farnar voru 1.185.000 ferðir á fyrri hluta árs 2024 af íbúum á Íslandi samanborið við um 1.251.000 ferðir fyrri hluta 2023. Ferðum landsmanna á fyrri hluta árs fækkaði því um 5,2% á milli ára en Hagstofa Íslands birtir nú niðurstöður ferðavenjurannsóknar fyrir árið 2023 og fyrri hluta árs 2024, eða frá janúar 2023 til júní 2024. Um er að ræða bæði vinnuferðir og ferðir í einkaerindum, jafnt innan lands sem utan, þar sem gist var að minnsta kosti eina nótt. Fækkunin á milli 2023 og 2024 skýrist fyrst og fremst af færri vinnuferðum.
Heildarfjöldi ferða á árinu 2023 var um 2.559.000, nánast sá sami og á fyrra ári. Þó má merkja breytingar á ferðamynstri á milli ára, þar sem einkaferðum innanlands fækkaði um 2,3% frá 2022, úr 1.550.000 í 1.514.000, á meðan ferðum í einkaerindum erlendis fjölgaði um 3,9%, úr 737.000 í 766.000. Fjöldi vinnuferða árið 2023 var 279.000 og stóð nánast í stað frá fyrra ári.
Á fyrsta ársfjórðungi 2023 mátti greina 37% fjölgun ferða frá sama ársfjórðungi 2022, úr 381.000 ferðum í 522.000, enda voru ferðatakmarkanir vegna kórónuveirufaraldursins enn í gildi fram undir lok febrúar 2022. Á hinn bóginn fækkaði ferðum á þriðja ársfjórðungi um 17,4% á milli sömu ára, úr 972.000 í 803.000, sem má ef til vill skýra með því að uppsöfnuð þörf til ferðalaga eftir faraldurinn hafi leitt til mikils fjölda ferða á næstu misserum eftir að ferðatakmörkunum var endanlega aflétt.
Að meðaltali 8,8 ferðir á einstakling árið 2023
Ferðum landsmanna á fyrri hluta árs 2024 fækkaði um 5,2% á milli ára, úr 1.251.000 ferðum í 1.185.000. Þar munaði mest um fækkun vinnuferða um 29%, úr 162.000 í 114.000. Ferðum í einkaerindum innanlands fækkaði á sama tíma um 3,3%, úr 725.000 í 701.000, meðan utanlandsferðum í einkaerindum fjölgaði um 1,4%, úr 365.000 í 370.000.
Hver einstaklingur fór að meðaltali í um 1,7 (fjórði ársfjórðungur 2023 og fyrsti ársfjórðungur 2024) til 2,7 (þriðji ársfjórðungur 2023) ferðir á hverjum ársfjórðungi. Meðalfjöldi ferða á einstakling var 8,8 árið 2023.
Hlutfall ferðamanna (þ.e. þeirra sem fóru í að minnsta kosti eina ferð á viðkomandi ársfjórðungi) fylgir greinilegri árstíðasveiflu. Á tímabilinu sem um ræðir (2023 og fyrri helmingi 2024) fóru um 60% íbúa í að minnsta kosti eina ferð á fyrsta og fjórða ársfjórðungi en um 70% á öðrum og þriðja ársfjórðungi.
Að jafnaði ferðuðust karlar meira en konur á tímabilinu (janúar 2023 – júní 2024). Þó var hlutfall kvenna hærra en karla á öðrum ársfjórðungi 2024 (52%). Kynjamunur skýrist ekki hvað síst af því að vinnuferðir eru að jafnaði tíðari á meðal karla en kvenna.
Hagstofa Íslands birtir einnig fjölda ferða eftir aldri, brotið niður á tíu ára aldursbil. Til dæmis má nefna að þótt utanlandsferðum í einkaerindum hafi fækkað frá fyrra ári um 11% á þriðja ársfjórðungi 2023, úr 239.000 í 212.000, fjölgaði slíkum ferðum í aldurshópnum 35-44 ára um 16%, úr 39.000 í 45.000. Einnig fjölgaði þeim um 32% í aldurshópnum 65-79 ára, úr um 19.000 í 25.000.
Hagstofa Íslands hóf rannsókn á ferðavenjum Íslendinga árið 2021. Stóran hluta þess tíma sem rannsóknin nær til litaðist ferðamynstur Íslendinga af kórónuveirufaraldrinum og eftirköstum hans. Þetta ber að hafa í huga þegar niðurstöður eru túlkaðar.
Um gögnin
Gögnum fyrir ferðavenjurannsókn er bæði safnað á vef og með úthringingum og er markmiðið að afla upplýsinga um ferðalög landsmanna, bæði vinnuferðir og ferðir í einkaerindum, svo lengi sem gist er að minnsta kosti eina nótt fjarri heimili sínu.
Rannsóknin fer þannig fram að í hverjum ársfjórðungi er haft samband við 1.550 einstaklinga á aldrinum 16-79 ára sem búsettir eru á Íslandi samkvæmt þjóðskrá og þeir spurðir um ferðir sínar í næsta ársfjórðungi á undan. Fyrir endanlegt úrtak voru þeir einstaklingar frátaldir sem reyndust látnir, ekki búsettir á Íslandi eða ekki taldir sem partur af þýði af öðrum ástæðum. Endanlegt svarhlutfall fyrir tímabilið sem hér um ræðir (fyrsta ársfjórðung 2023 til annars ársfjórðungs 2024) var mismunandi á milli ársfjórðunga en sveiflaðist á bilinu 49%-56%.
Aðferð við mat á mannfjölda var endurskoðuð í mars 2024 auk þess sem bæst hafa við upplýsingar um bakgrunnsbreytur fyrir útreikninga. Tölur frá og með árinu 2021 hafa því verið uppfærðar.
Við gerð ferðavenjurannsóknar er stuðst við aðferðafræði sem byggir á tilskipunum Evrópusambandsins um ferðamálatölfræði með það fyrir augum að niðurstöðurnar sé hægt að bera saman við niðurstöður sambærilegra kannana í öðrum aðildarlöndum Evrópska efnahagssvæðisins (EES). Ætlunin er að fleiri breytur bætist við síðari birtingar svo sem ástæður þess að ekki var ferðast á síðasta ársfjórðungi, helstu áfangastaðir innanlands og utan og eyðsla á ferðalögum. Gert er ráð fyrir að birta tölur fyrir seinni hluta árs 2024 um mitt ár 2025.
Um úrtaksrannsókn er að ræða og þarf að hafa það í huga við túlkun á niðurstöðum. Allar tölur geta tekið breytingum yfir tíma í ljósi frekari yfirferðar.