FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 25. MAÍ 2021

Heildarfjöldi skráðra gistinátta ferðamanna á Íslandi var um 3,3 milljónir árið 2020 en þær voru um 8,4 milljónir árið 2019. Gistinóttum fækkaði um 70,4% á milli ára á höfuðborgarsvæðinu og um 69,9% á Suðurnesjum en minna á landsbyggðinni. Til dæmis fækkaði gistinóttum á milli ára um 29,9% á Vestfjörðum og 33,9% á Austfjörðum.

Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 2 milljónir árið 2020, um 658.000 í annarri innigistingu og gistinætur á tjaldsvæðum voru um 617.000.

Skráðar gistinætur ferðamanna 2020
Hótel og gistiheimili Önnur gisting Tjaldsvæði
2020%2020%2020%
Alls2.020.155-65,1%658.141-61,6%617.208-31,5%
Höfuðborgarsvæði784.805-71,3%272.266-66,6%7.124-84,7%
Suðurnes129.979-70,5%9.666-66,8%12.160-64,5%
Vesturland151.261-52,2%36.017-67,1%72.952-34,9%
Vestfirðir70.343-31,2%19.686-43,1%61.936-22,5%
Norðurland vestra27.540-66,7%18.908-58,2%23.815-25,6%
Norðurland eystra279.312-48,8%74.223-49,7%150.750-23,1%
Austurland115.594-46,7%26.884-54,5%98.50910,9%
Suðurland461.321-66,0%200.491-57,6%189.962-39,0%

Heildarfjöldi gistinátta árið 2020 dróst því saman um 60,8% á milli ára. Þar af var 65,1% fækkun á hótelum og gistiheimilum, 61,6% samdráttur var í annarri innigistingu og 31,5% samdráttur á tjaldsvæðum.

Mikill samdráttur varð í öllum landshlutum og gistitegundum nema á tjaldsvæðum á Austurlandi. Þar voru gistinætur 88.800 árið 2019 en 98.500 árið 2020 og er það aukning um 10,9%.

Þar sem kórónuveirufaraldurinn leiddi til skertra millilandasamgangna var óvenju stór hluti gistinátta vegna innlendra ferðamanna eða um 44,5%. Innlendar gistinætur voru um 1,5 milljón sem er aukning um 34,7% frá fyrra ári en erlendar gistinætur drógust saman um 75% og voru um 1,8 milljón.

Samkomubann vegna kórónuveirufaraldursins var sett á um miðjan mars 2020 og sjást áhrif faraldursins vel þegar gistinætur eru skoðaðar niður á mánuði. Janúar og febrúar voru í svipuðum takti og tímabilið á undan en í mars varð 54,6% samdráttur. Í framhaldinu varð mikill samdráttur í gistinóttum útlendra ferðamanna, um 70-75% yfir hásumarið en 90-97%% þar fyrir utan. Íslenskum gistinóttum fjölgaði aftur á móti á milli ára og skýrist það af aukningu sem varð á tímabilinu júní til september.

Skráðar gistinætur eftir mánuðum
 Alls  Íslendingar  Útlendingar  
 20192020%20192020%20192020%
Janúar392.641418.2706,5%35.08653.19851,6%357.555365.0722,1%
Febrúar515.071480.172-6,8%47.14061.17429,8%467.931418.998-10,5%
Mars576.899261.685-54,6%60.60835.941-40,7%516.291225.744-56,3%
Apríl438.67730.263-93,1%56.38612.761-77,4%382.29117.502-95,4%
Maí570.56089.131-84,4%70.14466.005-5,9%500.41623.126-95,4%
Júní942.661292.890-68,9%148.953221.30448,6%793.70871.586-91,0%
Júlí1.314.668837.432-36,3%249.761529.648112,1%1.064.907307.784-71,1%
Ágúst1.253.825559.247-55,4%179.553284.24058,3%1.074.272275.007-74,4%
September822.943142.955-82,6%77.27884.6399,5%745.66558.316-92,2%
Október656.10184.162-87,2%61.04150.446-17,4%595.06033.716-94,3%
Nóvember477.43255.223-88,4%59.56638.304-35,7%417.86616.919-96,0%
Desember444.81344.074-90,1%44.12429.875-32,3%400.68914.199-96,5%

Á fyrstu þremur mánuðum 2020 (janúar-mars) voru gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu sem miðlað var í gegnum vefsíður á borð við Airbnb um 175.000 sem var um 51% minna en á fyrstu þremur mánuðum ársins 2019 þegar þær voru um 356.000. Tölur um fjölda erlendra gistinátta á gististöðum sem miðla gistingu í gegnum Airbnb og svipaðar síður eru áætlaðar út frá svörum í landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands.

Skyndileg fækkun á brottförum frá landinu er leið á marsmánuð olli því að ómögulegt reyndist að halda uppi svörun í landamærarannsókn og var hún tímabundið lögð niður í sumarlok með það fyrir augum að taka hana upp á ný þegar aðstæður færu batnandi. Af þessum orsökum eru áætlaðar gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu, sem miðlað var gegnum deilisíður á borð við Airbnb, ekki taldar með í ofangreindum heildarfjölda skráðra gistinátta ferðamanna. Samkvæmt sömu áætlun voru gistinætur erlendra ferðamanna á fyrstu þremur mánuðum ársins tæplega 2.500 í bifreiðum utan tjaldsvæða og um 32.000 hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Tilraunatölfræði um gistinætur á hótelum og ferðavenjurannsókn
Fyrir réttu ári hófst tilraunatölfræðiverkefni innan Hagstofu Íslands þar sem fyrsta bráðabirgðamat á fjölda gistinátta á hótelum er birt að jafnaði innan tíu daga frá lokum mánaðar byggt á fyrstu skilum frá hótelum. Gert er ráð fyrir að þessu verkefni verði haldið áfram á þessu ári.

Á dögunum hóf Hagstofa Íslands gagnasöfnun fyrir ferðavenjurannsókn. Tilgangur hennar er að afla upplýsinga um ferðalög þeirra sem búsett eru á Íslandi, bæði innanlands og utan, auk þess sem vonir standa til að hægt verði að nota upplýsingar úr henni til þess að áætla fjölda innlendra gistinátta í heimagistingu sem miðlað er gegnum vefsíður á borð við Airbnb. Ætlunin er að byrja að birta niðurstöður úr ferðavenjurannsókn síðar á þessu ári.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.