FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 10. MARS 2022

Í apríl 2020 hóf Hagstofa Íslands útgáfu tilraunatölfræði þar sem gistinætur hótela voru áætlaðar út frá undirhópi hótela sem skila gögnum að jafnaði snemma. Ákveðið hefur verið að taka talnaefnið í almenna birtingu og mun það hér eftir uppfærast innan tíu daga frá lokum hvers mánaðar.

Miðað við bráðabirgðatölur sem byggja á fyrstu skilum fyrir febrúar 2022 má ætla að gistinætur á hótelum hafi verið um 295.100 (95% öryggismörk 283.700-306.400), þar af hafi gistinætur Íslendinga verið um 80.200 og gistinætur útlendinga um 214.800.

Í febrúar 2021 voru um 41.900 gistinætur en um 88% þeirra voru gistinætur Íslendinga. Til frekari samanburðar má nefna að gistinætur á hótelum í febrúar 2020 voru 334.900, þar af voru gistinætur útlendinga 297.500. Gistinætur í febrúar 2022 eru því um 12% færri en þær voru 2020.

Samkvæmt sömu áætlun var rúmanýting í febrúar 2022 um 47% (95% öryggismörk: 45,2%-48,8%) samanborið við 10,1% í sama mánuði í fyrra og 50,8% árið 2020.

Bráðabirgðatölur fyrir janúar 2021 gerðu ráð fyrir að gistinætur hefðu verið um 168.800 en endanlegur fjöldi hótelgistinátta var 161.600. Í sömu útgáfu var gert ráð fyrir að rúmanýting hefði verið um 24,5%. Þegar búið var að vinna úr öllum tölum reyndist nýtingin vera 23,2%.

Miklar breytingar eiga sér nú stað á framboði á hótelrýmum og eykur það mjög óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta. Því er rétt að taka áætluðum bráðabirgðatölum um fjölda gistinátta á hótelum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur eru birtar.

Talnaefni
Gistinætur og gestakomur á hótelum eftir mánuðum 1998-
Nýting herbergja og rúma á hótelum 2000-

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.