Gistinóttum á hótelum í júlí fjölgaði um 17,5% milli ára
Gistinætur á hótelum í júlí síðastliðnum voru 150.329 en voru 127.905 árið 2003 (17,5%). Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum þennan mánuð. Aukningin var mest á Austurlandi, en gistináttafjöldinn þar fór úr 7.016 í 8.746 milli ára (24,7%). Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 22,7% þegar gistinæturnar fóru úr 71.910 í 88.200 milli ára. Á Suðurlandi voru gistinæturnar á hótelum í júlí 21.747 en voru 19.071 árið 2003 (14%). Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum jókst gistináttafjöldinn í júlí um 10,8% þegar gistinæturnar fóru úr 12.317 í 13.642 milli ára. Á Norðurlandi nam aukning gistinátta rúmum 2%.
Í júlí fjölgaði gistinóttum Íslendinga á hótelum um 26,8% en gistinóttum útlendinga um 16,7%.
Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.