Miðað við bráðabirgðatölur sem byggja á fyrstu skilum fyrir mars 2022 má ætla að gistinætur á hótelum hafi verið um 307.000 (95% öryggismörk 289.000-325.000). Þar af hafi gistinætur Íslendinga verið um 73.000 (95% öryggismörk 61.000-84.000) og gistinætur erlendra ferðamanna um 234.000 (95% öryggismörk 217.000-250.000).
Í mars 2021 voru um 49.700 gistinætur en um 82% þeirra voru gistinætur Íslendinga borið saman við um 24% í mars síðastliðnum. Þótt íslenskum gistinóttum hafi því fjölgað um 80% á milli ára er fjölgun gistinátta einkum drifin áfram af mikilli aukningu á gistinóttum erlendra ferðamanna.
Samkvæmt sömu áætlun var rúmanýting í mars 2022 um 43,2% (95% öryggismörk: 40,7%-45,7%) samanborið við 11,1% í sama mánuði í fyrra. Rúmanýting er nú á við það sem hún var í mars 2012 en þá var hún 42,5%.
Bráðabirgðatölur fyrir febrúar gerðu ráð fyrir að gistinætur hefðu verið um 295.000 (95% öryggismörk 283.000-307.000) en endanlegur fjöldi hótelgistinátta var nokkuð lægri eða 271.200. Í sömu útgáfu var gert ráð fyrir að rúmanýting hefði verið um 47,0% (95% öryggismörk: 45,2%-48,8%). Þegar búið var að vinna úr öllum tölum reyndist nýtingin vera 40,5%.
Miklar breytingar eiga sér nú stað á framboði á hótelrýmum og eykur það mjög óvissu í bráðabirgðamati á fjölda gistinátta. Því er rétt að taka áætluðum bráðabirgðatölum um fjölda gistinátta á hótelum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur hafa verið birtar.