Gistinóttum á hótelum og gistiheimilum janúar-apríl fjölgaði um 9,4% milli ára
Gistinætur á hótelum og gistiheimilum fyrstu fjóra mánuði ársins 2004 voru 258.771 en voru 236.607 fyrir sama tímabil árið 2003. Á þessu tímabili fjölgaði gistinóttum í öllum landshlutum. Mest var aukningin á Austurlandi en þar nam hún rúmum 3000 gistinóttum eða sem nemur 41,5% og á Norðurlandi vestra (41,2%), en minnst aukning var á Suðurnesjum, eða 3,7%.
Fjölgun gistinátta á hótelum og gistiheimilum janúar-apríl á bæði við um íslenska (10,7%) og erlenda gesti (8,8%).
Alls voru 171 hótel og gistiheimili opin fyrstu fjóra mánuði ársins 2004, en það eru 5 fleiri staðir en árið á undan. Herbergjafjöldi fór úr 4.740 í 5.031 milli ára og rúmafjöldi úr 9.622 í 9.995.
Nýting gistirýmis fór úr 28,5% í 30,7% milli ára fyrir landið í heild. Á höfuðborgarsvæðinu og á Suðurnesjum versnaði nýtingin meðan hún batnaði á landsbyggðinni fyrstu fjóra mánuði ársins miðað við sama tímabil árið 2003.
Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.