Gistinóttum á hótelum fjölgaði um 9,6% í ágúst 2025 samkvæmt bráðabirgðatölum Hagstofu Íslands um ferðaþjónustu á Íslandi. Alls voru gistinæturnar rúmlega 667.000 á landsvísu en til samanburðar voru þær tæplega 609.000 á sama tíma árið 2024. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum og hlutfallslega mest á Suðurlandi (20,5%). Nokkuð jafnari aukning var í öðrum landshlutum þar sem gistinóttum fjölgaði um 7,3% á Austurlandi, 6,3% á Suðurnesjum og 6,2% á höfuðborgarsvæðinu. Þá var 5,1% aukning á Norðurlandi og 3,6% á Vesturlandi og Vestfjörðum. Alls fjölgaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 18 þúsund en samanlagt um tæplega 41 þúsund í öðrum landshlutum, þar af um ríflega 31 þúsund á Suðurlandi.
Gistinætur erlendra ferðamanna voru rúmlega 616.000, eða 92% af gistinóttum hótela, og var það 12,1% aukning frá fyrra ári. Gistinætur Íslendinga á hótelum voru tæplega 51.000 sem var 13,6% minna en í ágúst árið 2024. Meginþorri erlendra ferðamanna var af bandarísku bergi brotinn en gistinóttum þeirra fækkaði þó um 0,8% í ágúst. Töluverð aukning var á gistinóttum ferðamanna frá Þýskalandi (14,7%), Ítalíu (20,2%) og Kína (56,3%). Á fyrstu átta mánuðum ársins jukust gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum um 7,9%. Gistinóttum Íslendinga á hótelum fækkaði hins vegar um 4,5% á sama tíma.
Framboð hótelherbergja jókst um 4,0% á landinu í ágúst. Mest jókst framboð herbergja á Suðurlandi eða um 13,9%. Á Vesturlandi og Vestfjörðum jókst framboðið um 4,0% auk þess sem 2,3% aukning var á Norðurlandi. Litlar breytingar voru höfuðborgarsvæðinu (0,7%) auk þess sem fjöldinn stóð í stað á Suðurnesjum. Á Austurlandi fækkaði hótelherbergjum um 2,1%. Alls voru 182 hótel starfandi í ágúst 2025 með rúmlega 12.600 herbergi og var fjöldinn aðeins meiri en á sama tíma árið 2024 þegar alls voru starfandi 177 hótel. Á höfuðborgarsvæðinu voru rekin 60 hótel með alls 5.620 herbergi og 53 á Suðurlandi með 3.189 herbergi.
Herbergjanýting jókst um 3,6 prósentustig á landinu í heild og var aukning í öllum landshlutum. Mest jókst nýtingin á Austurlandi (10,0 prósentustig) en nokkur aukning var á Suðurnesjum (5,6 prósentustig) og Norðurlandi (4,7 prósentustig). Á Suðurlandi jókst nýtingin um 3,2 prósentustig og 3,0 prósentustig á höfuðborgarsvæðinu. Loks jókst herbergjanýting lítillega á Vesturlandi og Vestfjörðum eða um 0,8 prósentustig. Í ágúst var herbergjanýting mest á Suðurlandi (93,3%) og því næst á höfuðborgarsvæðinu (92,2%).
Allir gististaðir
Þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í ágúst rúmlega 1.606.000. Þetta var 11,4% aukning miðað við sama tíma árið 2024 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum rúmlega 1.442.000. Meginþorri gistinátta var á hótelum og gistiheimilum eða tæplega 893.000 (667.000 á hótelum og 226.000 á gistiheimilum) en rúmlega 713.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, orlofshúsum, o.s.frv.). Á fyrstu átta mánuðum ársins voru uppsafnaðar gistinætur alls 7.345.000 sem var 8,8% meira en á sama tíma árið 2024.
Endurskoðun gagna eftir þjóðerni og óskráðar gistinætur
Unnið er að endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur og eru því takmarkaðar upplýsingar birtar um fjölda gistinátta eftir þjóðerni. Fyrir vikið eru eingöngu birtar tölur um fjölda gistinátta eftir þjóðernum fyrir hótel. Þær tölur sem eru birtar eru bráðabirgðatölur og geta breyst við næstu mánaðarlegu birtingar. Gögn sem fást frá gististöðum geta innihaldið tölur um fjölda gistinátta af óþekktum þjóðernum og er þeim tölum dreift með hlutfallslegum hætti á þekkt þjóðerni hverju sinni.
Þar sem útreikningar á áætluðum óskráðum gistinóttum erlendra ferðamanna byggja á upplýsingum um fjölda gistinátta eftir þjóðerni er ekki unnt að birta staðfestar tölur um áætlaðar óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hér á landi í ágúst.
Endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur er á lokastigum og stefnt er á að öll gögn verði birt við næstu útgáfu í október.
Lýsigögn
Tölur um gistinætur fyrir skráða gististaði eru fengnar úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.
Allar tölur fyrir 2025 eru bráðabirgðatölur nema tölur um gistinætur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir ágúst 2025.