Heildarfjöldi greiddra gistinátta í apríl síðastliðnum dróst saman um 96% samanborið við apríl 2019. Þar af fækkaði gistinóttum á hótelum um 97% og um 93% á gistiheimilum. Þá var 93% fækkun á öðrum tegundum gististaða (farfuglaheimilum, orlofshúsum o.s.frv.).
Greiddar gistinætur ferðamanna á öllum gististöðum voru um 20.800 í apríl en þær voru um 519.000 í sama mánuði árið áður. Um 68% gistinátta voru skráðar á Íslendinga, eða um 14.200, en um 32% á erlenda gesti eða um 6.600 nætur. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 13.500, þar af 9.200 á hótelum. Gistinætur á öðrum tegundum gististaða voru um 7.300.
Skyndileg fækkun brottfara frá Keflavíkurflugvelli olli því að ekki náðist að safna úrtaki fyrir framkvæmd landamærarannsóknar Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands í apríl. Af þeim sökum reyndist ekki unnt að áætla fjölda gistinátta erlendra ferðamanna utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í apríl, þ.e. á stöðum sem miðla gistingu gegnum Airbnb og svipaðar síður, í bílum utan tjaldsvæða eða innandyra þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu. Ráðgert er að hefja áætlun á gistinóttum erlendra ferðamanna utan hefðbundinnar gistináttaskráningar að nýju þegar framkvæmd landamærarannsóknar kemst aftur í fyrra horf.
Í lok mars tóku mörg hótel þá ákvörðun að loka tímabundið og voru 75 hótel lokuð í apríl. Framboð gistirýmis minnkaði um 44,6% frá apríl 2019, mælt í fjölda hótelherbergja, sem skýrist af lokunum hótela.
Herbergjanýting á hótelum í apríl 2020 var 3,5% og dróst saman um 45,7 prósentustig frá fyrra ári.
Framboð og nýting hótelherbergja í apríl | ||||||
Herbergjafjöldi á hótelum í apríl | Herbergjanýting hótela í apríl | |||||
2019 | 2020 | % | 2019 | 2020 | prst | |
Alls | 10.432 | 5.778 | -44,6% | 49,2% | 3,5% | -45,7 |
Höfuðborgarsvæði | 5.082 | 2.435 | -52,1% | 56,5% | 3,0% | -53,5 |
Suðurnes | 821 | 546 | -33,5% | 60,8% | 8,5% | -52,3 |
Vesturland og Vestfirðir | 757 | 552 | -27,1% | 33,2% | 3,4% | -29,8 |
Norðurland | 1.154 | 689 | -40,3% | 36,0% | 2,5% | -33,5 |
Austurland | 441 | 212 | -51,9% | 28,0% | 1,9% | -26,1 |
Suðurland | 2.177 | 1.344 | -38,3% | 44,6% | 3,1% | -41,5 |
Gistinætur á hótelum í apríl síðastliðnum voru 9.200 sem er fækkun um 97% frá sama mánuði árið áður. Um 32,7% gistinátta á hótelum voru skráð á erlenda ferðamenn eða 3.000, en gistinætur Íslendinga voru 6.200 eða 67,3%.
Gistinætur á hótelum | ||||||
Apríl | Maí-apríl | |||||
2019 | 2020 | % | 2018-2019 | 2019-2020 | % | |
Alls | 272.590 | 9.198 | -97 | 4.444.386 | 4.064.970 | -9 |
Höfuðborgarsvæði | 149.894 | 3.367 | -98 | 2.521.978 | 2.260.224 | -10 |
Suðurnes | 27.421 | 1.978 | -93 | 335.532 | 354.489 | 6 |
Vesturland og Vestfirðir | 13.650 | 954 | -93 | 254.488 | 227.168 | -11 |
Norðurland | 20.916 | 827 | -96 | 326.570 | 301.161 | -8 |
Austurland | 6.443 | 177 | -97 | 106.092 | 110.303 | 4 |
Suðurland | 54.266 | 1.895 | -97 | 899.726 | 811.625 | -10 |
Þjóðerni | ||||||
Íslendingar | 37.054 | 6.193 | -83 | 440.405 | 401.419 | -9 |
Erlendir gestir | 235.536 | 3.005 | -99 | 4.003.981 | 3.663.551 | -9 |
Á 12 mánaða tímabili, frá maí 2019 til apríl 2020, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.065.000 sem er 9% fækkun miðað við sama tímabil árið áður.
Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir hótel koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Frekari lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.
Allar tölur fyrir árið 2020 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela, en fyrir þau eru bráðabirgðatölur fyrir apríl 2020. Áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða er um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir í lok árs.