FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 31. JANÚAR 2024

Samkvæmt fyrstu tölum um gistinætur á árinu 2023 voru gistinætur á öllum tegundum skráðra gististaða tæplega 10 milljónir samanborið við 8,5 milljónir árið 2022 og hefur því fjölgað um 16% á milli ára. Gistinætur Íslendinga voru um 22% allra gistinátta eða um 2,1 milljónir sem er um 9% aukning frá fyrra ári. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 78% gistinátta eða um 7,8 milljónir samanborið við 6,6 milljónir árið áður.

Á árinu 2023 voru gistinætur á hótelum og gistiheimilum um 6,6 milljónir og um 3,4 milljónir á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús, tjaldsvæði o.s.frv.). Heildarfjöldi gistinátta á hótelum var um 5.257.800 sem er 12% aukning frá árinu áður. Aukning var á hótelgistingu í öllum landshlutum á árinu.

Í desember síðastliðnum voru gistinætur á skráðum gististöðum 409.600 og er það 3% samdráttur frá fyrra ári (421.000). Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 81% allra gistinátta eða um 329.900 sem er 1% samdráttur frá fyrra ári (333.300). Gistinætur Íslendinga voru um 79.800 og drógust saman um 9% á milli ára (87.700). Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 332.800 og um 76.800 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.).

Gistinætur á hótelum í desember voru 294.900 sem er um 7% samdráttur frá desember 2022. Samdráttur varð á Suðurnesjunum og höfuðborgarsvæðinu en aukning í öðrum landshlutum. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 239.400, eða 81% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 55.600 (19%). Gistinætur erlendra ferðamanna drógust saman um 5% og Íslendinga um 13%.

Framboð hótelherbergja í desember síðastliðnum var á pari við desember 2022. Herbergjanýting á hótelum var 46,8% og dróst saman um fjögur prósentustig frá fyrra ári.

Áætlað er að óskráðar erlendar gistinætur í heimagistingu á árinu 2023 hafi verið um 1.508.000, gistinætur í húsbílum utan gjaldskyldra tjaldsvæða hafi verið um 84.200 og um 281.000 hjá vinum og ættingjum. Í desember er áætlað að óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hafi verið um 73.000 gegnum vefsíður og um 21.000 hjá vinum og ættingjum en að fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í húsbílum hafi verið um 6.000.

Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir skráða gististaði koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Allar tölur fyrir 2023 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir desember 2023.

Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands á meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hófst í október 2017 og Hagstofa Íslands birtir áætlaðan fjölda erlendra gistinátta utan hefðbundinnar gistináttaskráningar sem byggir á niðurstöðum hennar. Þar eru áætlaðar erlendar gistinætur í heimahúsum sem miðlað er í gegnum heimasíður, s.s. Airbnb, auk erlendra gistinátta í húsbílum og tjaldvögnum utan gjaldskyldra tjaldsvæða og einnig hjá vinum, ættingjum, í húsaskiptum eða þar sem ekki er greitt sérstaklega fyrir gistingu.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.