Gistinætur á hótelum í janúar voru tæplega 291.000 á landsvísu eða tæplega 1,4% fleiri en á sama tíma árið 2024 þegar þær voru tæplega 287.000. Gistinóttum fjölgaði töluvert í flestum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem þeim fækkaði um tæplega 4,4%.
Mest fjölgaði gistinóttum á Norðurlandi (34,7%), Austurlandi (24,0%) og á Suðurnesjum (20,0%). Þá var 10,4% aukning á Suðurlandi og 7,6% á Vesturlandi og Vestfjörðum. Alls fækkaði gistinóttum á höfuðborgarsvæðinu um tæplega 9 þúsund en samanlögð aukning í öðrum landshlutum var tæplega 13 þúsund.
Framboð hótelherbergja í janúar dróst saman um tæplega 1,9% miðað við sama tíma árið 2024. Samdráttur var í öllum landshlutum nema á Norðurlandi þar sem fjöldi herbergja jókst um 2,8%. Mest minnkaði framboð á Austurlandi (-24,3%) en minni breytingar voru í öðrum landshlutum þar sem herbergjafjöldi dróst saman um 3,8% á Suðurlandi, 3,2% á Vesturlandi og Vestfjörðum, 1,4% á Suðurnesjum og 0,7% á höfuðborgarsvæðinu.
Herbergjanýting jókst aftur á móti í öllum landshlutum nema á höfuðborgarsvæðinu þar sem hún dróst saman um 1,2 prósentustig. Á landinu í heild sinni mældist aukningin í nýtingu herbergja alls 1,9 prósentustig og var aukningin mest á Austurlandi (7,3 prósentustig). Umtalsverð aukning var einnig á Suðurlandi (5,9 prósentustig). Loks jókst herbergjanýting um 3,4 prósentustig á Suðurnesjum, 3,1 prósentustig á Norðurlandi og 2,0 prósentustig á Vesturlandi og Vestfjörðum.
Allir gististaðir
Þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í janúar tæplega 401.000. Þetta var 2,8% aukning miðað við sama tíma árið 2024 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum tæplega 390.000. Meginþorri gistinátta var á hótelum og gistiheimilum eða tæplega 328.000 (291.000 á hótelum og 37.000 á gistiheimilum) en um 73.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, orlofshúsum, o.s.frv.).
Endurskoðun gagna eftir þjóðerni og óskráðar gistinætur
Unnið er að endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur og er því ekki unnt að birta sundurliðun á fjölda gistinátta eftir þjóðerni að svo stöddu. Á meðan unnið er að frekari skoðun á gögnunum verður því tölfræði um gistinætur ekki birt eftir þjóðerni gesta. Rétt er þó að geta þess að ekki er ástæða til að véfengja heildarfjölda gistinátta.
Þar sem útreikningar á áætluðum óskráðum gistinóttum erlendra ferðamanna byggja á upplýsingum um fjölda gistinátta eftir þjóðerni er sömuleiðis ekki unnt að birta staðfestar tölur um áætlaðar óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hér á landi í janúar.
Lýsigögn
Tölur um gistinætur fyrir skráða gististaði eru fengnar úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.
Allar tölur fyrir 2025 eru bráðabirgðatölur nema tölur um gistinætur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir janúar 2025.