FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 31. ÁGÚST 2022

Gistinætur á skráðum gististöðum voru um 1.550.600 í júlí síðastliðnum og hafa þær aldrei verið fleiri. Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 82% gistinátta, eða um 1.271.400, sem er rúmlega tvöföldun frá fyrra ári (588.200). Gistinætur Íslendinga voru um 279.100 sem eru um helmingi færri en á fyrra ári. Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 805.200 (þar af 599.200 á hótelum) og um 745.400 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús, tjaldsvæði o.s.frv.).

Gistinætur á hótelum í júlí voru 599.200 og jókst hótelgisting í öllum landshlutum samanborið við júlí 2021. Mest var hlutfallsleg aukning á höfuðborgarsvæðinu eða 89%. Gistinætur erlendra ferðamanna á hótelum tæplega tvöfölduðust á milli ára og voru 495.900. Gistinætur Íslendinga voru 103.300 og er það 15% fækkun frá fyrra ári.

Á tólf mánaða tímabili, frá ágúst 2021 til júlí 2022, var heildarfjöldi gistinátta á hótelum um 4.091.300 sem er rúmlega þrefalt meira en á sama tímabili árið áður. Aukning var í öllum landshlutum á þessu tímabili.

Framboð hótelherbergja í júlí jókst um 19% frá júlí 2021. Herbergjanýting á hótelum var 88,9% og jókst um 19,3 prósentustig frá fyrra ári.

Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir hótel koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Frá vorinu 2020 gaf Hagstofan um tíma út áætlun út frá fyrstu skilum fyrir gistinætur á hótelum. Þeirri útgáfu hefur nú verið hætt.

Allar tölur fyrir 2022 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir júlí 2022. Áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel er um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því er rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.