FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 09. JÚLÍ 2024

Skráðar gistinætur í maí voru um 611.000 sem er um 15% minna en í maí 2023 (720.000). Fjöldi gistinátta á hótelum var 385.800 sem er 7,1% minna en í maí í fyrra.

Gistinætur erlendra ferðamanna í maí voru um 78% gistinátta, eða um 478.000, sem er 18% fækkun frá fyrra ári (584.000). Gistinætur Íslendinga voru um 134.000 sem er 1% minna en í maí í fyrra (135.000). Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 481.000 og um 130.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús o.s.frv.).

Gistinætur á hótelum í maí voru 385.800 eða 7,1% færri en á fyrra ári (415.100). Töluverður samdráttur var í hótelgistingu í öllum landshlutum, þar af hlutfallslega mestur á Austurlandi (-24%) og Suðurnesjum (-18%). Á höfuðborgarsvæðinu fækkaði gistinóttum á hótelum í maí um 5,2% á milli ára.

Gistinætur erlendra ferðamanna voru 304.800, eða 79% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 80.900 (21%). Fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna dróst saman um 9,2% á milli ára en gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 2,0%.

Framboð hótelherbergja í maí jókst um 2,7% miðað við maí 2023. Á sama tíma dróst herbergjanýting á landinu saman um 6,9 prósentustig. Herbergjanýting dróst saman í öllum landshlutum, mest á Austurlandi (-14,3) og Suðurlandi (-9,5).

Áætlað er að óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna í heimagistingu í maí hafi verið um 92.000 í gegnum vefsíður sem miðla heimagistingu og um 14.000 hjá vinum og ættingjum en að fjöldi gistinátta erlendra ferðamanna í húsbílum hafi verið um 4.000.

Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir skráða gististaði koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.

Allar tölur fyrir 2024 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir maí 2024.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.