Skráðar gistinætur í mars hafa aldrei verið fleiri eða 639.100 sem er um 31% aukning frá fyrra ári (488.300) og 8,3% aukning frá fyrra metári 2018 (590.300).
Gistinætur erlendra ferðamanna voru um 80% gistinátta, eða um 508.800, sem er 39% aukning frá fyrra ári (367.300). Gistinætur Íslendinga voru um 130.400 sem er 7% aukning frá fyrra ári (121.000). Gistinætur á hótelum og gistiheimilum voru um 502.300 og um 136.800 á öðrum tegundum skráðra gististaða (íbúðagisting, orlofshús, tjaldsvæði o.s.frv.). Áætlaður fjöldi erlendra gistinátta í heimagistingu utan hefðbundinnar gistináttaskráningar í mars var um 92.000.
Gistinætur á hótelum í mars voru 423.400 sem er 30% aukning frá fyrra ári (326.000). Hótelgisting jókst í öllum landshlutum samanborið við mars 2022. Gistinætur erlendra ferðamanna voru 346.000, eða 82% af hótelgistinóttum, á meðan gistinætur Íslendinga voru 77.400 (18%). Gistinætur erlendra ferðamanna jukust um 35% og gistinætur Íslendinga um 11%.
Framboð hótelherbergja í mars jókst um 5% frá mars 2022. Herbergjanýting á hótelum var 65,5% og jókst um 10,4 prósentustig frá fyrra ári.
Áætlun sem byggir á svörum úr landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands er nú uppfærð fyrir mars og samkvæmt henni var áætlaður fjöldi gistinátta í heimagistingu utan hefðbundinnar gistináttaskráningar um 92.000. Gistinætur erlendra ferðamanna í bílum utan tjaldsvæða voru um 2.000. Gistinætur hjá vinum og ættingjum, í gegnum húsaskipti eða annars staðar þar sem ekki var greitt sérstaklega fyrir gistingu, voru um 16.000.
Landamærarannsókn Ferðamálastofu og Hagstofu Íslands meðal erlendra ferðamanna sem framkvæmd er í Flugstöð Leifs Eiríkssonar hófst í júní 2017 og Hagstofa Íslands birtir áætlaðan fjölda erlendra gistinátta utan hefðbundinnar gistináttaskráningar sem byggir á niðurstöðum hennar. Þar eru áætlaðar erlendar gistinætur í heimahúsum sem miðlað er í gegnum heimasíður, s.s. Airbnb, auk erlendra gistinátta í húsbílum og tjaldvögnum utan gjaldskyldra tjaldsvæða og einnig hjá vinum, ættingjum, í húsaskiptum eða þar sem ekki er greitt sérstaklega fyrir gistingu. Vegna mikillar fækkunar brottfara frá Keflavíkurflugvelli í kjölfar kórónuveirufaraldursins lá landamærarannsóknin að mestu niðri frá apríl 2020 til maí 2021 og má ætla að fjöldi erlendra gistinátta á því tímabili hafi verið hverfandi þá mánuði sem rannsóknin var ekki framkvæmd.
Lýsigögn
Gistináttatölur fyrir hótel koma úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.
Allar tölur fyrir 2022 og 2023 eru bráðabirgðatölur nema gistináttatölur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir mars 2023. Áætlun fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel er um þessar mundir háð meiri óvissu en vanalega fyrir tilstilli örra breytinga á framboði og nýtingu og því er rétt að taka þeim tölum með sérstökum fyrirvara þar til endanlegar tölur liggja fyrir.