Gistinætur á hótelum í október voru rúmlega 513.800 á landsvísu eða um 4,1% fleiri en á sama tíma árið 2023 þegar þær voru 493.800. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Suðurnesjum (-9,8%) og á Austurlandi (-17,3%) auk þess sem fjöldinn stóð nánast í stað á höfuðborgarsvæðinu (0,5%). Mest var fjölgun gistinátta á Suðurlandi (17,0%) og á Vesturlandi og Vestfjörðum (13,7%). Þá var einnig 6,4% aukning á Norðurlandi.
Framboð hótelherbergja í október jókst um 2,3% miðað við sama tíma árið 2023. Líkt og um gistinæturnar jókst fjöldi herbergja mest á Suðurlandi, eða um 9,9%, og á Vesturlandi og Vestfjörðum, um 7,3%. Tiltölulega litlar breytingar voru hins vegar í öðrum landshlutum. Herbergjanýting jókst aftur á móti í öllum landshlutum nema á Suðurnesjum (-9,4 prósentustig) og Austurlandi (-9,2 prósentustig). Á landinu í heild sinni jókst herbergjanýting um 1,6 prósentustig og var aukningin mest á Norðurlandi (4,2 prósentustig) og Suðurlandi (5,8 prósentustig).
Allir gististaðir
Þegar allir skráðir gististaðir (hótel, gistiheimili, tjaldsvæði, orlofshús, o.fl.) eru skoðaðir var áætlaður heildarfjöldi gistinátta í október tæplega 779.000. Þetta var 2,3% aukning miðað við sama tíma árið 2023 en þá var heildarfjöldi gistinátta á öllum gististöðum tæplega 762.000. Meginþorri gistinátta var á hótelum og gistiheimilum eða rúmlega 609.000 (514.000 á hótelum og 95.000 á gistiheimilum) en um 170.000 á öðrum tegundum skráðra gististaða (tjaldsvæðum, orlofshúsum, o.s.frv.).
Endurskoðun gagna eftir þjóðerni og óskráðar gistinætur
Unnið er að endurskoðun á flokkun gagna um gistinætur og er því ekki unnt að birta sundurliðun á fjölda gistinátta eftir þjóðerni að svo stöddu. Rannsókn stendur yfir á grunngögnum frá árinu 2021 þar sem skoðað er hvort gistinætur Íslendinga hafi verið ofmetnar í mælingum og gistinætur erlendra gesta að sama skapi vanmetnar. Á meðan unnið er að frekari skoðun á gögnunum verður því tölfræði um gistinætur ekki birt eftir þjóðerni gesta. Rétt er þó að geta þess að ekki er ástæða til að véfengja heildarfjölda gistinátta. Eingöngu ber að setja fyrirvara á skiptingu fjölda gistinátta eftir þjóðerni.
Þar sem útreikningar á áætluðum óskráðum gistinóttum erlendra ferðamanna byggja á upplýsingum um fjölda gistinátta eftir þjóðerni er sömuleiðis ekki unnt að birta staðfestar tölur um áætlaðar óskráðar gistinætur erlendra ferðamanna hér á landi í október.
Lýsigögn
Tölur um gistinætur fyrir skráða gististaði eru fengnar úr gistináttagrunni Hagstofu Íslands. Lýsigögn um fjölda gististaða, gesta og gistinátta má nálgast á vef Hagstofunnar.
Allar tölur fyrir 2024 eru bráðabirgðatölur nema tölur um gistinætur hótela þar sem bráðabirgðatölur eru fyrir október 2024.