Gistinóttum á hótelum í ágúst fjölgaði um rúm 9% milli ára
Gistinætur á hótelum í ágúst árið 2005 voru 151.070 en voru 138.250 árið 2004 (9% aukning). Hlutfallslega varð mesta aukningin á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 12.550 í 14.500 (16%). Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 12.000, úr 82.450 í 94.490 og fjölgaði þar með um 15% milli ára. Á Austurlandi nam aukningin 2%, en gistinæturnar fóru úr 7.770 í 7.940. Gistinóttum á hótelum í ágúst fækkaði hinsvegar á Norðurlandi (-8%) og á Suðurlandi stóðu þær nánast í stað milli ára (-0,2%).
Í ágúst árið 2005 voru gistinætur Íslendinga á hótelum 16.560 á móti 14.370 árið á undan, sem er rúmlega 15% aukning. Gistinóttum útlendinga á hótelum fjölgaði hlutfallslega minna eða um 9% milli ára, úr 123.880 í ágúst árið 2004 í 134.510 í ágúst árið 2005.
Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann).
Gistinóttum á hótelum fjölgaði um tæp 6 % maí-ágúst (2. ársþriðjung) 2005
Gistinætur á hótelum yfir sumarmánuðina (maí-ágúst samanlagt) voru 515.850 árið 2005 en voru 487.310 árið á undan. Fyrir þetta tímabil varð hlutfallslega mesta aukningin á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum en þar nam aukningin tæpum 17% milli ára. Á höfuðborgarsvæðinu jókst gistináttafjöldinn um rúm 9% og á Austurlandi um 5%. Gistinóttum á Suðurlandi fækkaði hinsvegar um tæp 9% og á Norðurlandi um 4%.
Fjölgun gistinátta maí-ágúst er bæði vegna Íslendinga (18%) og útlendinga (4%).
Tölur fyrir 2005 eru bráðabirgðatölur.