FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 02. OKTÓBER 2009


Gistinóttum á hótelum í ágúst fjölgaði um tæp 8% milli ára

Gistinætur á hótelum í ágúst síðastliðnum voru 205.100 en voru 190.500 í sama mánuði árið 2008. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða.

Hlutfallslega fjölgaði gistinóttum mest á Norðurlandi úr 19.900 í 24.200 eða um rúmt 21%. Gistinóttum á Austurlandi fjölgaði um 16% miðað við ágúst 2008, úr 11.300 í 13.100. Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 28.000 í 30.300 eða um rúm 8% og á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum úr 112.400 í 119.300 eða um rúm 6%. Á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða fækkaði gistinóttum úr 18.800 í 18.200 eða um 3%.

Gistinóttum Íslendinga á hótelum í ágúst fækkaði um rúm 6% milli ára en gistinætur erlendra ríkisborgara jukust um tæp 10%.


Gistinætur á hótelum fyrstu átta mánuði ársins eru svipaðar milli ára
Fjöldi gistinátta fyrstu átta mánuði ársins voru 977.700 en voru 977.200 á sama tímabili árið 2008. Gistinóttum fjölgaði á Norðurlandi um 10% og á Suðurlandi um 5%. Á öllum öðrum landsvæðum fækkaði gistinóttum, mest á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða, um 10%. Fyrstu átta mánuði ársins fækkaði gistinóttum Íslendinga um 13% en gistinóttum erlendra ríkisborgara fjölgaði um rúm 3% miðað við sama tíma í fyrra.

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.