FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 07. FEBRÚAR 2005

Gistinóttum á hótelum í desember fjölgaði um tæp 8% milli ára
Gistinætur á hótelum í desember voru 37.390 en voru 34.720 árið 2003 (7,7% aukning).  Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um rúm 1.000 en þær voru 2.360 í desember síðastliðnum, en voru 1.310 í sama mánuði árið 2003.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fóru gistinæturnar úr 2.190 í 3.030 sem er aukning um rúm 38%.  Á Austurlandi fjölgaði gistinóttum um 200 þegar þær fóru úr 770 í 970 milli ára.  Á Norðurlandi átti sér stað aukning um rúm 16% þegar gistináttafjöldinn fór úr 1.150 í 1.340 milli ára.  Gistinóttum á hótelum á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði örlítið, eða um rúmt 1% en gistinætur þar fóru úr 29.300 í 29.690 í desembermánuði. 

Gistinóttum á hótelum árið 2004 fjölgaði um tæp 9% milli ára
Fjöldi gistinátta á hótelum árið 2004 voru 965.110 árið 2004 en voru 889.390 árið 2003 (8,5% aukning).  Fjölgun gistinátta átti sér stað í öllum landshlutum nema á Norðurlandi þar sem samdráttur nam tæpu 1% milli ára og töldust gistinæturnar 80.290 árið 2004.  Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi, um 22% og fór gistináttafjöldinn úr 33.250 í 40.600 milli ára.  Á höfuðborgarsvæðinu voru gistinætur á hótelum árið 2004 653.930 árið 2004, en þær voru 598.830 árið 2003 (9,2% aukning). Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum um 8,5%, en gistinæturnar fóru úr 105.730 í 114.710.   Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum nam aukningin rúmum 7% milli ára þegar gistináttafjöldinn fór úr 70.600  í 75.580 milli áranna 2003 og 2004. 
Þegar litið er á gistinætur á hótelum allt árið frá árinu 1998 má sjá að aukningin nemur tæpum 37% á tímabilinu sem er nánast eingöngu vegna útlendinga (49% aukning). 
     Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann).  Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða voru 70 talsins árið 2004, en voru 66 árið á undan.  
     Tölur fyrir 2004 eru bráðabirgðatölur og eru tölur fyrir aðra mánuði ársins uppfærðar mánaðarlega.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.