FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 06. FEBRÚAR 2006


Gistinóttum á hótelum í desember fjölgaði um rúm 13% milli ára

Gistinætur á hótelum í desember árið 2005 voru 42.300 en voru 37.400 í sama mánuði árið 2004 (13,3% aukning).  Gistinóttum fjölgaði hlutfallslega mest á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum þar sem gistinætur fóru úr 3.000 í 3.700 milli ára (20%).  Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 14%, en gistináttafjöldinn fór úr 29.500 í 33.800.  Á Suðurlandi fóru gistinæturnar úr 2.400 í 2.600 sem er aukning um 8%.  Gistinóttum á hótelum fækkaði á Norðurlandi um 3% og á Austurlandi um 2%.

Fjölgun gistinátta á hótelum í desember árið 2005 er bæði vegna Íslendinga og útlendinga.


Gistinætur á hótelum allt árið 2005

Gistinóttum á hótelum árið 2005 fjölgaði um 6% milli ára

Gistinætur á hótelum árið 2005 voru 1.028.200 en voru 968.900 árið 2004 (6% aukning).  Hlutfallslega var mesta aukningin á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, en þar fór heildarfjöldi gistinátta úr 77.800 í 93.800 og fjölgaði þar með um 21% milli ára.  Á höfuðborgarsvæðinu nam aukningin 7%, en þar fjölgaði gistinóttum um 46.100, úr 655.400 í 701.500.  Á Austurlandi var fjöldi gistinátta á hótelum árið 2005 svipaður og árið 2004, en fjölgaði þó um 1% milli ára.
Á Norðurlandi og Suðurlandi dróst gistináttafjöldinn saman um 2% á hvoru svæði um sig. 

Sé litið á einstaka mánuði má sjá að gistinóttum á hótelum fjölgaði alla mánuði ársins 2005, nema í  febrúar en þá fækkaði nóttum um 1% og í mars fækkaði nóttum um 5%.  Mest varð aukningin í janúar, september og desember eða um 13,5% í hverjum mánuði fyrir sig.

Ef tölur ársins 2005 eru bornar saman við árið 2001 sést að fjöldi gistinátta á hótelum hefur aukist um 32% á þessum 5 árum.  Á þessu tímabili fjölgaði gistinóttum í öllum landshlutum, en þó einna mest á Suðurlandi en þar varð aukningin 75%.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum varð aukningin 38%, Norðurlandi 36%, höfuðborgarsvæðinu 30% og  á Austurlandi 5%.


Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. 

Tölur fyrir 2005 eru bráðabirgðatölur.

Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1100 , netfang upplysingar@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.