FRÉTT FERÐAÞJÓNUSTA 31. JANÚAR 2017

Gistinætur á hótelum í desember voru 287.400 sem er 56% aukning miðað við desember 2015. Gistinætur erlendra gesta voru 90% af heildarfjölda gistinátta í mánuðinum en þeim fjölgaði um 59% frá sama tíma í fyrra á meðan gistinóttum Íslendinga fjölgaði um 10%.

Flestar gistinætur á hótelum í desember voru á höfuðborgarsvæðinu eða 213.000 sem er 44% aukning miðað við desember 2015. Um 74% allra gistinátta voru á höfuðborgarsvæðinu. Næstflestar voru gistinætur á Suðurlandi eða um 37.800. Erlendir gestir með flestar gistinætur í desember voru Bretar með 89.700 gistinætur, Bandaríkjamenn með 65.900 og Þjóðverjar með 15.800, en íslenskar gistinætur í desember voru 28.200.

Árið 2016 var heildarfjöldi gistinátta á hótelum 3.808.100 sem er 33% aukning miðað við árið 2015. Hagstofan áætlar að heildarfjöldi gistinátta á öllum tegundum gististaða hafi árið 2016 verið um 8.500.000, þar af hafi gistinætur erlendra gesta verið um 7.500.000 og gistinætur Íslendinga um 1.000.000. Þar sem eftir er að ganga frá mati á gistinóttum fyrir aðrar tegundir gististaða en hótel eru þessar tölur ekki endanlegar og er gert ráð fyrir að þær verði uppfærðar í birtingu um gistinætur ársins 2016 í mars 2017.

 

63,6% nýting herbergja á hótelum í desember 2016
Herbergjanýting í desember 2016 var 63,6%, sem er aukning um 16,8 prósentustig frá desember 2015, þegar hún var 46,8%. Nýtingin var best á höfuðborgarsvæðinu, eða um 84,5%. Meðalnýting hótelherbergja árið 2016 var 71,3%, sem er aukning um 7,4 prósentustig frá árinu 2015, þegar meðalnýting var 63,9%.

Gistinætur á hótelum
  Desember   Janúar - desember  
  2015 2016 % 2015 2016 %
             
Alls 184.694 287.443 56 2.870.785 3.808.120 33
Höfuðborgarsvæði 147.846 213.070 44 1.867.462 2.420.965 30
Suðurnes 8.469 17.886 111 145.866 207.371 42
Vesturland og Vestfirðir 2.774 5.304 91 124.200 171.535 38
Norðurland 4.475 6.873 54 188.037 283.635 51
Austurland 1.568 6.538 317 123.911 187.124 51
Suðurland 19.562 37.772 93 421.309 537.490 28
             
Íslendingar 21.156 28.230 33 323.285 397.186 23
Erlendir gestir 163.538 259.213 59 2.547.500 3.410.934 34

Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann. Vegna bættra upplýsinga um gististaði í gistináttagrunni Hagstofunnar hafa orðið smávægilegar breytingar á tölulegum upplýsingum um gistinætur og framboð á hótelum sem ná aftur til júlí 2016. Töflur á vef Hagstofunnar hafa verið leiðréttar til samræmis við þetta. Tölur fyrir árið 2016 eru bráðabirgðatölur.


Talnaefni

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar eru veittar í síma 528 1000 , netfang gistiskyrslur@hagstofa.is

Deila


Öllum eru heimil afnot af fréttatilkynningunni. Vinsamlegast getið heimildar.