Gistinóttum á hótelum í janúar fjölgaði um rúm 13% milli ára
Gistinætur á hótelum í janúar voru 36.340 en voru 32.050 árið 2004 (13,4% aukning). Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á Austurlandi (-15,4%). Á Suðurlandi fjölgaði gistinóttum úr 1.780 í 2.130 sem er tæplega 20% aukning. Á höfuðborgarsvæðinu nam fjölgun gistinátta rúmum 16%, en þær fóru úr 24.880 í 28.950 milli ára. Á Norðurlandi átti sér einnig stað aukning, en gistinóttum fjölgaði þar um tæp 7% er þær fóru úr 1.130 í 1.210. Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fóru gistinæturnar úr 2.690 í 2.730 sem er aukning um 1,5%.
Fjölgun gistinátta á hótelum í janúar 2005 er bæði vegna Íslendinga (18,9%) og útlendinga (11%).
Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann). Fjöldi hótela í þessum flokki gististaða sem opnir voru í janúar voru 65 talsins 2005, en voru 70 árið á undan.
Tölur fyrir 2004 og 2005 eru bráðabirgðatölur.