Gistinóttum á hótelum í mars fjölgaði um 19% milli ára
Gistinætur á hótelum í mars síðastliðnum voru 87.600 en voru 73.700 í sama mánuði árið 2006, sem er fjölgun um 13.900 nætur eða tæplega 19%. Gistinóttum fjölgaði í öllum landshlutum nema á samanlögðu svæði Suðurnesja, Vesturlands og Vestfjarða þar sem þeim fækkaði um tæp 2%, úr 6.900 í 6.800. Aukningin var hlutfallslega mest á Austurlandi þar sem gistinóttum fjölgaði um rúmlega helming, fóru úr 1.700 í 2.700 milli ára (58% aukning). Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um 11.900, úr 52.200 í 64.100 sem er 23% aukning. Á Norðurlandi nam fjölgunin 13% í mars, en fjöldi gistinátta fór úr 4.300 í 4.900 milli ára. Gistinætur á hótelum á Suðurlandi voru 9.100 í mars síðastliðnum en voru 8.500 í sama mánuði árið 2006 og fjölgaði þar með um rúm 7%.
Fjölgun gistinátta á hótelum í mars má eingöngu rekja til útlendinga þar sem gistinætur Íslendinga stóðu í stað milli ára.
Gistirými á hótelum í marsmánuði jókst milli ára. Fjöldi herbergja fór úr 3.656 í 3.866, 6% aukning og fjöldi rúma úr 7.419 í 7.861, 6% aukning. Hótel sem opin voru í mars síðastliðnum voru 72 en 73 í sama mánuði árið 2006.
Gistinóttum á hótelum á fyrsta ársfjórðungi fjölgaði um 20% milli ára
Gistinætur á hótelum í janúar, febrúar og mars samanlögðum voru 203.300 en voru 169.900 fyrir sama tímabil árið 2006. Fjölgun varð á öllum landsvæðum. Mest var hún þó á Austurlandi þar sem gistinæturnar nærri tvöfölduðust milli ára, úr 3.300 í 6.400. Aukningin nam 22% á Suðurlandi, 21% á höfuðborgarsvæðinu, 11% á Norðurlandi og 0,5% á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum, en þessar tölur eru birtar í einu lagi vegna þess hve gististaðir eru fáir.
Fjölgun gistinátta fyrstu þrjá mánuði ársins skiptist þannig að gistinóttum útlendinga fjölgaði um 27% og Íslendinga um 4%.
Athygli skal vakin á því að hér er eingöngu átt við gistinætur á hótelum, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið. Til þessa flokks gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann.
Tölur fyrir 2007 eru bráðabirgðatölur.
Talnaefni