Gistinóttum á hótelum í nóvember fjölgaði um rúm 8% milli ára
Gistinætur á hótelum í nóvember árið 2005 voru 57.400 en voru 53.000 í sama mánuði árið 2004 (8,2% aukning).  Gistinóttum fjölgaði á öllum landsvæðum í nóvembermánuði, en hlutfallslega var hún mest á Suðurlandi þar sem gistinætur fóru úr 4.200 í 5.900 milli ára (42%).  Á Austurlandi nam aukningin 18%, en gistináttafjöldinn fór úr 1.200 í 1.400.  Á Suðurnesjum, Vesturlandi og Vestfjörðum fóru gistinæturnar úr 4.300 í 5.000 sem er aukning um 16%.  Gistinætur á hótelum á Norðurlandi voru 2.650 í nóvember síðastliðnum en voru 2.600 árið 2004, sem er 2% aukning.  Á höfuðborgarsvæðinu fjölgaði gistinóttum um rúmlega 1.600, en þær fóru úr 40.800 í 42.400 milli ára (4% aukning).

Fjölgun gistinátta á hótelum í nóvember árið 2005 er bæði vegna Íslendinga og útlendinga.

Athygli skal vakin á því að hér er átt við gistinætur á hótelum eingöngu, þ.e. hótelum sem opin eru allt árið (í þessum flokki gististaða teljast hvorki gistiheimili né hótel sem eingöngu eru opin yfir sumartímann). 

Tölur fyrir 2005 eru bráðabirgðatölur.

* Allar tölur eru rúnaðar, því gæti virst ósamræmi milli talna um fjölda gistinátta og prósentubreytinga.  

Talnaefni